Bretarnir lentu á Akureyri í morgun með Titan Airways

Í dag komu farþegar á vegum Super Break til Akureyrar, og hópur sem hafði verið á Akureyri um helgina fór með vélinni til baka. Eins og áður hefur komið fram sér breska flugfélagið Titan Airways um flugið fyrir Super Break og flugmenn félagsins áttu ekki í vandræðum með á að lenda og taka á loft frá Akureyrarflugvelli í dag þrátt fyrir að veðurskilyrði væri ekki þau bestu og innanlandsflug hafi farið úr skorðum. Þetta er mikil andstæða við ferðir Super Break síðasta vetur, þegar pólska flugfélagið Enter Air  sá um flugið fyrir Super Break, en þá var nokkuð fjallað um hve oft flugfélagið hætti við að lenda á Akureyrarflugvelli. Titan Airways vandaði vel til verks í undirbúningi fyrir ferðirnar til Akureyrar og sú vinna er greinilega að skila sér núna.

Það voru því tæplega 200 ánægðir farþegar sem lentu á Akureyri í morgun og munu njóta íslenskra jóla áður en þeir halda aftur til síns heima á föstudag og annar hópur kemur í staðinn. Einnig verður flogið á gamlársdag til Akureyrar, með ferðamenn sem koma gagngert til að upplifa áramót á Norðurlandi.

Mynd: Isavia/Auðunn Níelsson