Breikkun Múlaganga rædd á samráðsfundi

Fulltrúar Vegagerðarinnar, Birgir Guðmundsson svæðisstjóri og Gísli Eiríksson yfirmaður jarðgangadeildar, og kynntu á samráðsfundi Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar skýrslu um úrbætur í Ólafsfjarðarmúla og svöruðu fyrirspurnum.

Fram kom að áætlaður kostnaður við ný 8,8 km göng með skálum frá Upsaströnd yfir í Burstabrekku er 11 milljarðar, en breikkun og lagfæring Múlaganga, ásamt snjóflóðavörnum og lagfæringu á vegum kosta 4,6 milljarða.

 Talið er að með lagfæringu og breikkun fáist göng sambærileg við Héðinsfjarðargöng að gæðum. Ekki er talin þörf á loftræstingu í Múlagöng. Með breikkun milli útskota geta orðið til 8 metra breið göng með 47 m2 þversnið. Þversnið í Héðinsfjarðargöngum er 50m2 Tímalengd verks yrði 11 til 19 mánuðir eftir því hversu miklar opnanir yrðu á verktíma, með tilheyrandi töfum fyrir fólk og atvinnurekstur. Opna yrði gamla veginn fyrir Múlann.

Farið var yfir áætlanir um snjóflóðavarnir á þessari leið, því snjóflóðahættan veldur ótta, endurbætur á öryggisbúnaði og lýsingu í göngunum. Minnst var á umferðarstjórnun í tengslum við viðburði og mögulega vakt á daginn yfir sumartímann, sem getur verið hagkvæm lausn.

Í tengslum við gerð samgönguáætlunar er mikilvægt fyrir samvinnu sveitarfélaganna að fá vitneskju um það að eitthvað verði gert í öryggis- og vegamálum á veginum milli sveitarfélagana. Þeir fundarmenn sem tjáðu sig um valkostina, töldu breikkun Múlaganga vera nær okkur í framkvæmdatíma en ný göng.