Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar keppti við lið Aftureldingar B í Mosfellsbæ á sunnudag. Í liði Aftureldingar voru tveir fyrrum leikmenn BF, þeir Kristinn Freyr Ómarsson og Eduard Bors, en hann er bróðir Patrik Bors sem leikur með BF.

Blakfélag Fjallabyggðar byrjaði leikinn mjög vel og hafði yfirhöndina alla fyrstu hrinuna og komust strax í 0-3 og 2-4, en þá kom mjög góður kafli BF sem skoruðu 5 stig í röð og breyttu stöðunni í 2-9. BF var áfram með yfirburði og komust í 5-13 og 6-16 og 10-20. Svo fór að BF vann hrinuna með yfirburðum 13-25 á aðeins 19. mínútum. Athyglisvert var að Afturelding tók ekkert leikhlé í hrinunni, en það er þekkt leikatriði þegar annað lið sígur framúr, eða hefur skorað mörg stig í röð, og oftar en ekki truflar leikhlé slíkar lotur.

Önnur hrina var mjög jöfn og skiptust liðin á að leiða, í stöðunni 5-5 tók BF að síga framúr og komst í 6-10 með góðum kafla og í 11-15 og 15-19. Hér urðu kaflaskil á leiknum og Afturelding skoraði 8 stig í röð en á þessum kafla tók BF tvö leikhlé, en það hafði engin áhrif á lið heimamanna. BF klóraði í bakkann og náði að jafna leikinn í 23-23 með því að skora fjögur stig í röð og hleypa spennu í leikinn. Heimamenn voru sterkari á lokasprettinum og unnu hrinuna 25-23, og staðan orðin 1-1.

Þriðja hrina var líka nokkuð jöfn og skiptust liðin á að taka forystu, en þó ekki með afgerandi hætti fyrr en leið á hrinuna. Staðan var jöfn í 4-4 og þá kom góður kafli hjá BF sem skoraði fjögur stig í röð og kom þeim í 4-8, en heimamenn komu til baka og jöfnuðu í 10-10, og komust yfir í 15-10. Þórarinn kom inná fyrir Gísla Marteinn og tvö leikhlé voru tekin með skömmu millibili af BF til að brjóta leikinn upp. BF náði nú þremur stigum í röð og minnkuðu muninn í 15-13. Heimamenn voru þó áfram sterkari á lokakaflanum og komust í 19-14 og 22-18. Afturelding vann hrinuna 25-20 og komust í 2-1.

Í fjórðu hrinu byrjaði Afturelding ágætlega og komust í 2-0 og tók BF strax leikhlé. Staðan jafnaðist og var 3-3 og 5-5 og tók þá BF forystuna og komust í 6-9 og 9-15. BF var betri aðilinn á lokakafla hrinunnar og unnu 17-25, og staðan orðin 2-2 og oddahrinan framundan.

Oddahrinan var jöfn og skiptust liðin á að leiða með tveim til þrem stigum. Í stöðunni 6-4 tók BF leikhlé. BF minnkaði muninn í 10-8 og aftur var jafnt í 13-13 og tók þá Afturelding sitt fyrsta leikhlé. Heimamenn áttu síðustu tvö stigin og unnu 15-13 og leikinn 3-2.

Svekkjandi tap BF í annars nokkuð jöfnum leik.

Eftir leikinn kærði BF úrslitin, en liðið taldi að Afturelding hefði notað ólöglegan leikmann.