Bókin Á Ytri-Á er nú komin í verslanir Pennans og var útgáfuhóf haldið nýlega í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði. Bókin er 516 blaðsíður og kostar 7399 kr. í Pennanum/Eymundsson. Það eru afkomendur hjónanna Mundínu og Finns sem stóðu fyrir útgáfu bókarinnar í gegnum félagið Sýrdalsvoga. Óskar Þór Halldórsson er höfundur bókarinnar og vann hann að gerð hennar sl. tvö ár.

Á Ytri-Á á Kleifum við vestanverðan Ólafsfjörð bjuggu á tuttugustu öld hjónin Mundína Þorláksdóttir og Sigurbjörn Finnur Björnsson. Þau, eignuðust tuttugu börn á tuttugu og átta árum, frá 1917 til 1945. Þau hjónin létust á níunda áratug síðustu aldar og hvíla í Ólafsfjarðarkirkjugarði. Sextán af tuttugu börnum Mundínu og Finns komust til fullorðinsára, fjögur létust í æsku. Átta af sextán börnunum eru á lífi.

Inngangur bókarinnar:
Samfélagsgerðin hefur tekið miklum breytingum á Íslandi á tuttugustu öld á því sem næst öllum sviðum. Fólk flutti í stórum stíl úr sveitum landsins í þéttbýlið og mörg blómleg þorp og húsaþyrpingar þar sem fólk dró fram lífið af gjöfum náttúrunnar hafa þagnað og eftir standa húsin og allar minningarnar sem þau fóstruðu. Ein þessara yfirgefnu og hljóðu húsaþyrpinga eru Kleifarnar í vestanverðum Ólafsfirði þar sem sagan og minningarnar um athafnasemi og sjálfsbjargarviðleitni eru við hvert fótmál. Kjör fólksins á Kleifunum voru oft og tíðum kröpp og sveifluðust með duttlungum náttúruaflanna. Þegar illa áraði þrengdi að.
Til marks um miklar þjóðfélagsbreytingar er ekki mannsaldur síðan algengt var að konur á Íslandi ættu 5-10 börn og voru stórar fjölskyldur meira áberandi út í hinum dreifðu byggðum. Á síðustu 20-30 árum hefur fæðingum fækkað ár frá ári og Íslendingar eru ekki lengur í einu af toppsætunum í barneignum í Vestur-Evrópu. Samkvæmt tölum Hagstofunnar fyrir árið 2018 var frjósemi kvenna að meðaltali 1,7 barn og hefur þessi tala aldrei verið lægri.
Í þessari bók er sögð saga Mundínu Freydísar Þorláksdóttur og Sigurbjörns Finns Björnssonar á Ytri-Gunnólfsá (Ytri-Á) á Kleifum í Ólafsfirði sem eignuðust tuttugu börn á árunum 1917 til 1945. Sextán þeirra komust til fullorðinsára, fjögur dóu í æsku. Bæði létust Mundína og Finnur í hárri elli á níunda áratug síðustu aldar. Dagsverkið sem þau skiluðu var ríkulegt.
Fyrir þá Íslendinga sem nú eru að vaxa úr grasi, ganga menntaveginn, eiga börn og koma sér þaki yfir höfuðið er eðlilega erfitt að skilja hvernig lífið gekk fyrir sig á svo stóru heimili sem Ytri-Á var. Hvernig gat ein kona fætt tuttugu börn, hvernig var hægt að fæða og klæða öll þessi börn, hvernig var hægt að koma öllum fyrir í þröngum húsakynnum, hvernig var þetta yfirleitt hægt? Þegar stórt er spurt verður stundum fátt um svör en almennt má segja að lífsviðmiðin voru allt önnur í þá daga. Þá gekk lífið út á að lifa frá degi til dags, eiga ofan í sig og á. Um meira var ekki beðið.
Ekkert skal um það fullyrt hér hvort fjölskyldan á neðri hæðinni á Ytri-Á var sú stærsta á Íslandi á tuttugustu öld en ekki kæmi á óvart að svo hefði verið. Það þurfti elju og óendanlegan dugnað foreldra og barna þeirra til þess að hin daglega lífsvél mallaði áfram í réttum takti.
Á þessu ári eru hundrað og þrjú ár liðin frá því Mundína og Finnur eignuðust sitt fyrsta barn og sjötíu og fimm ár síðan það yngsta kom í heiminn. Tuttugu börn á tuttugu og átta árum. Afkomendur þeirra eru nú á fimmta hundrað.
Til þess að ná saman þessari sögu hef ég víða aflað fanga en of langt mál yrði að nefna alla þá sem hafa lagt hönd á plóg, veitt upplýsingar eða vísað mér veginn. Takmarkað er til af rituðum heimildum og fá bréf hafa varðveist. Frásögnina hef ég því að hluta byggt á munnlegum heimildum og vil ég þakka öllum þeim sem veittu mér upplýsingar af ýmsum toga. Einnig vil ég færa öllum sem lögðu til myndefni einlægar þakkir. Það er gömul saga og ný að myndir segja meira en mörg orð og varðveita söguna betur en margt annað. Því er engin tilviljun að bókin er ríkulega myndskreytt.
Það er mín von og trú að þessi bók varpi ljósi á samfélagið á Ytri-Á á Kleifum og sé um leið minnisvarði um horfna tíð sem er þó svo stutt frá okkur í tíma.
Þetta er saga Mundínu og Finns og barnanna þeirra tuttugu.
Um höfundinn:

Bókarhöfundurinn Óskar Þór Halldórsson starfaði til fjölda ára sem blaða- og fréttamaður á dagblöðum og í útvarpi og sjónvarpi. Fyrri bækur hans eru Gullin ský, ævisaga Helenu M. Eyjólfsdóttur, Svarfdælasýsl – þættir úr sögu Svarfaðardals (sem hann skrifaði með bróður sínum, Atla Rúnari Halldórssyni) og Kennedybræður – saga Baldurs, Vilhelms, Birgis, Skúla og Eyjólfs Ágústssona á Akureyri.

Inngangur og texti birt með leyfi höfundar.

Engin lýsing til
Myndir birtar með leyfi bókarhöfundar.

Engin lýsing til

Engin lýsing til