Blakúrslit dagsins frá Fjallabyggð – Umfjöllun í boði Torgsins

Torgið, veitingahús á Siglufirði er aðalstyrktaraðili umfjallanna um Blakfélag Fjallabyggðar í vetur í 1. deild karla og 2. deild kvenna.  Það eru hjónin Daníel Pétur Baldursson matreiðslumaður og Auður Ösp Hlíðdal Magnúsdóttir sem standa að baki veitingastaðnum Torginu á Siglufirði. Torgið er lítill, notalegur og fjölskylduvænn veitingastaður í hjarta Siglufjarðar. 

Umfjöllun 2. deild kvenna

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar átti tvo erfiða leik í dag gegn liðum í efstu fjórum sætum 2. deildar kvenna í blaki. Fyrri leikurinn var gegn UMF Hjalta en þær voru í 3. sæti í deildinni en BF í 2. sæti. UMF Hjalti voru sterkari í fyrstu hrinu og náðu góðu forskoti í stöðunni 6-10 og 8-14. BF minnkaði muninn í 10-15 en gestirnir komust í 10-18. BF náði góðum kafla og minnkaði muninn í 15-18 og 16-21. UMF Hjalti komst í 17-24 en BF barðist vel og minnkuðu muninn í 21-24 en gestirnir unnu hrinuna 21-25 og voru komnar í 0-1. BF stelpurnar byrjuðu vel í annarri hrinu og leiddu allan tíman en þær komust í 11-6 og 15-11. Gestirnir komu aðeins til baka og minnkuðu muninn í 17-16 en BF skoraði þá 5 stig í röð og var staðan því orðin vænlega 22-16. Gestirnir tóku leikhlé en BF vann öruggan sigur í hrinunni 25-19 og jöfnuðu leikinn 1-1. Oddahrinan var jöfn framan af en BF endaði sterkt.  Staðan var jöfn 5-5 og 10-10 en í stöðunni 10-11 skoruðu BF stelpurnar 5 stig í röð og kláruðu leikinn 15-11 og unnu því 2-1 þennan toppslag í úrslitakeppninni.

Síðari leikurinn í 2. deild kvenna hjá BF var gegn Fylki-B en þær höfðu einnig staði sig vel í úrslitakeppninni. Leikurinn varð þó ekki eins jafn og fyrirfram mátti búast, en BF stelpurnar voru bara mun sterkari og ákveðnari í þessum leik.  BF komst strax í 6-3 og 10-5 en gestirnir tóku strax hlé í stöðunni 14-7. BF komst í 18-7 eftir gott spil en Fylkir minnkaði muninn í 18-11. BF kláraði hrinuna örugglega 25-16 og voru komnar í 1-0. Það var ekki mikil mótspyrna í seinni hrinunni en BF komst í 13-6 og 18-7. Gestirnir tóku hlé í stöðunni 20-8 en BF kláraði hrinuna örugglega 25-11 og leikinn 2-0.

BF stelpurnar í 2. deild kvenna fóru því taplausar í gegnum úrslitakeppnina og enduðu með 13 stig í efsta sæti. Þær unnu 5 leiki og töpuðu engum, unnu 10 hrinur en töpuðu tveimur.

Umfjöllun 3. deild kvenna

BF Súlur léku í 3. deild kvenna og til úrslita í B-deild og stóðu sig vel og unnu 3 leiki af fimm sem dugði til að ná 3. sæti. BF Súlur léku við Þrótt Nes fyrir hádegið í dag og var það erfiður leikur. Þróttur komst í 1-7 en BF hrökk þá í gang og skoraði 10 stig í röð og var staðan orðin 11-7 og tóku gestirnir hlé. BF komst í 20-12 og allt leit vel út, en gestirnir komu til baka með látum og jöfnuðu 22-22 og var mikil spenna í lok hrinunnar. Þróttur komst yfir 22-24 og unnu hrinuna 23-25 og voru komnar í 0-1. Önnur hrina var líka spennandi og sveiflukennd en gestirnir frá Neskaupsstað komust í 4-7 og 5-10. BF minnkaði muninn í 14-16. Þróttur komst í 15-21 en BF jafnaði 23-23 og enn var komin mikil spennan í lok leiksins. Þróttur Nes tók síðustu tvö stigin og unnu þennan háspennuleik 0-2 og voru BF Súlur óheppnar að fara ekki með sigur í þessum leik.

Síðari leikur BF Súla í dag var gegn HSÞ.  Súlur komust í 9-3 en HSÞ jafnaði 9-9. BF komst í 14-10 og 19-14. BF vann fyrstu hrinuna örugglega 25-17. Súlur byrjuðu aðra hrinu af krafti og komust í 5-0 og 10-4. BF komst þá 15-8 en HSÞ minnkaði muninn í 15-12. BF stelpurnar voru sterkari í þessari hrinu og komumst í 21-15 og skoruðu síðustu 4 stigin og kláruðu hrinuna 25-15 og leikinn 2-0.

Engin lýsing til