Blakfélag Fjallabyggðar og Fylkir kepptu á Siglufirði í dag í 1. deild karla í blaki. Liðin mættust í byrjun febrúar í Árbænum og vann þá Fylkir 3-1. BF voru staðráðnir í að ná í sigur í kvöld en liðinu hefur gengið erfiðlega í síðustu leikjum að ná fram jákvæðum úrslitum.

Fyrsta hrinan var nokkuð jöfn framan af en í stöðunni 15-15 fóru heimamenn að síga framúr og unnu að lokum 25-21. Í annarri hrinu byrjuðu heimamenn af krafti og komust í 4-0 en Fylkismenn vöknuðu af værum blundi og jöfnuðu 7-7 og komust yfir 11-13. Þá kom góður kafli hjá BF og komust þeir í 19-14. Fylkir átti þá stuttan og góðan kafla og minnkuðu muninn í 20-18, en lengra komst þeir ekki, KF kláraði hrinuna af öryggi og unnu 25-18, og staðan orðin 2-0.

Í þriðju hrinu byrjaði BF aftur af krafti og komust í 3-0, en Fylkir komst í gangi jöfnuðu í 3-3 og 7-7. Aftur var jafnræði með liðunum í stöðunni 15-15, þá seig BF framúr og unnu örugglega 25-20, og leikinn 3-0.

BF hefur nú spilað 11 deildarleiki, unnið 5 og tapað 6, og eru með 16 stig. Í næstu umferð leikur BF við Hamar á Siglufirði.