Blakfélag Fjallabyggðar (BF) og Völsungur mættust á Húsavík í fyrsta leik liðanna í Benecta deildinni í blaki. Um 70 áhorfendur voru á leiknum til að hvetja liðin áfram. Það voru heimamenn á Húsavík sem byrjuðu fyrstu hrinuna betur og komust í 5-2, 7-3, 9-5, en þá tók við góður kafli BF og minnkuðu þeir muninn í 1 stig, 9-8, og tóku heimamenn leikhlé. Kom þá góður kafli hjá BF sem lagði grunninn af sigrinum í fyrstu hrinunni, en fljótlega eftir leikhléið var staðan orðin 10-14, 12-16 og 14-20. Heimamenn tóku annað leikhlé í stöðunni 14-18, en það skilaði þeim ekki sterkari til baka, heldur var BF með yfirhöndinna út hrinuna og voru komnir með gott forskot 16-24 og vantaði aðeins eitt stig til að klára hrinuna. BF vann fyrstu hrinuna 18-25, eftir yfirburði þegar leið á hrinuna.
Í annarri hrinu byrjaði BF mjög vel og voru komnir í 1-5 þegar Völsungur tók leikhlé til að stilla saman strengi sína. BF hélt áfram að ná stigum og voru komnir í 3-8, 4-10 og 6-11, en þá beit Völsungur frá sér og minnkuðu muninn 9-11, og tóku þá BF menn leikhlé. Jafnræði var með liðinum næstu mínútur og komst BF í 13-16 og 14-18 og tóku heimamenn leikhlé í þeirri stöðu. BF skipti Marcin inná fyrir Ólaf og héldu áfram að sækja stigin til að klára hrinuna. Staðan var 15-20 og 16-22 og sigurinn blasti við. BF vann einnig aðra hrinuna 18-25 með nokkrum yfirburðum.
Í þriðju hrinu byrjuðu BF menn álíka vel og í síðustu hrinu og komust í 1-5 og 4-8 þegar heimamenn taka leikhlé. BF var áfram með yfirhöndina og komust í 6-10 og 7-13. BF var áfram með mikla yfirburði og keyrðu yfir Völsunga og var staðan skyndilega orðin 8-18, 12-21 og 12-24. Heimamenn gerðu hvað þeir gátu og minnkuðu muninn í 16-24, en lengra náðu þeir ekki og vann BF 16-25 og leikinn 0-3.
Leikurinn tók aðeins 68. mínútur, en fyrsta hrinan var lengst og tók 27. mínútur.
Julian Lloret er þjálfari BF og aðstoðarþjálfari er Anna María Björnsdóttir. Liðið er blanda af eldri og reyndari mönnum og yngri manna ásamt erlendra leikmanna.
Næsti leikur liðsins er sunnudaginn 11. nóvember þegar Vestri kemur í heimsókn en þá fer jafnframt fram fyrsti leikur kvennaliðs BF.