Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar spilaði við Þrótt Reykjavík-b í dag á Siglufirði í fyrsta blakleik ársins í Fjallabyggð. Þróttur var í næstneðsta sæti fyrir leikinn en BF hefur verið að þokast upp töfluna var fyrir ofan miðja deild. BF stelpurnar léku síðast 8. desember en Þróttur spilaði við Völsung í gær á Húsavík, þar sem þær töpuðu 0-3.

BF byrjaði leikinn af krafti og komust í 4-0, 8-2 og 10-4. Þróttarastelpurnar komust aldrei almennilega inn í leikinn í fyrstu hrinu og var BF mun betra liðið. Í stöðunni 16-7 tók Þróttur leikhlé, en BF skoraði næstu fimm stig eftir hlé, og var staðan því orðin 21-7. BF vann hrinuna örugglega 25-8 og voru komnar í 1-0.

Í annari hrinu byrjaði BF líka sterkt og komust í 9-2 og tóku þá Þróttarar leikhlé. BF komst skömmu síðar í 12-4 og aftur tóku Þróttarar leikhlé. BF komst í 17-5 og virtist vera formsatriði að klára hrinuna.  Lokatölur í hrinunni voru 25-13 og BF var komið í 2-0.

Þriðja hrina var aðeins jafnari og reyndu Þróttarastelpur hvað þær gátu að halda í við BF. BF komst í 5-1, 10-6 og 13-11. BF komst svo í 17 -11 og 21-15 og tóku þá Þróttarar leikhlé. BF komst í 23-18 og voru nálægt því að klára leikinn. Þróttur minnkaði muninn í 24-21 en BF vann hrinuna 25-21 og leikinn örugglega 3-0.

Frábær byrjun hjá BF stelpum, en ungu stelpurnar spiluðu stórt hlutverk í þessum leik og voru að koma sterkar inn. BF er núna með 22 stig í 5. sæti deildarinnar eftir 13 leiki. Liðin fyrir ofan hafa öll spilað færri leiki en BF.