Blakfélag Fjallabyggðar með fulltrúa í U19 Landsliðinu

Landsliðsþjálfarar U19 ára landsliðanna í blaki hafa tilkynnt um lokahópa sína fyrir NEVZA ferðina til Kettering á Englandi. Eduardo Herrero Berenguer, aðalþjálfari U19 ára karlalandsliðsins hefur valið 12 manna hóp fyrir verkefnið. Í fyrsta sinn á Blakfélag Fjallabyggðar liðsmann í landsliðinu í blaki, en tveir voru valdir í þetta verkefni frá BF, en það eru Eduard Constantin Bors og Kristinn Freyr Ómarsson. Þeir eru einu leikmennirnir sem koma frá Norðurlandi í karlahópnum, en aðrir leikmenn koma frá Þrótti Nes, HK, Aftureldingu og Vestra.

U19 ára liðin halda til Englands dagana 26.-30. október og taka þátt í NEVZA móti. Fararstjóri er Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir og sjúkraþjálfari Sigurður Örn Gunnarsson.