Blakfélag Fjallabyggðar mætti HK-B

Blakfélag Fjallabyggðar mætti sterku liði HK-B í 1. deild kvenna í dag í Fagralundi í Kópavogi. Deildin fór af stað í dag með opnunarleik Fylkis og Völsungs, sem endaði með 1-3 sigri Húsvíkinga. HK er með sterk lið í blakinu og hefur yfir miklum fjölda að iðkenda að velja. Þar hefur barna- og unglingastarfið verið til fyrirmyndar í mörg ár og liðið hefur getað haldi úti mörgum liðum. Emil Gunnarsson er þjálfari liðsins og Elsa Sæný Valgeirsdóttir er þeirra reyndasti leikmaður.

BF kom til leiks með nýjan þjálfara Oscar Fernandez Celis og níu leikmenn á leikskránni. Það tók HK ekki nema 16 mínútur að klára fyrstu hrinuna en þær voru fljótar að síga framúr á upphafsmínútum hrinunnar. Þær komust í 5-2, 10-5 og 13-7 en þá tók þjálfari BF leikhlé. Áfram hélt svakalegur kafli hjá HK stelpum þar sem þær skoruðu 11 stig í röð og var staðan orðin 22-7. HK kláraði svo hrinuna örugglega 25-9.

Önnur hrina var jöfn frá upphafi til enda og skiptust liðin á að leiða. BF var að spila ágætlega í þessari hrinu og vantaði herslumuninn að ná að klára.  BF komst í 1-3, 2-5 og 4-8 en HK minnkaði muninn í 8-9 og jafnaði 9-9. BF tókst aftur að ná forskoti og komst í 9-12 og 11-14. Kom þá annar góður kafli hjá HK sem skoruðu sex stig í röð og var staðan orðin 17-14 og tók nú þjálfari BF leikhlé. Dagný Finns var sett inná á Anna María hvíldi á þessum kafla. HK hélt áfram forskoti og komst í 21-17 en þá skoraði BF þrjú stig í röð og minnkaði muninn í 21-20 og var töluverð spenna í leiknum á þessum tímapunkti. HK komst í 24-21 en  BF kom til baka og minnkaði muninn í 24-23. HK náði þessu eina dýrmæta stig og lokaði hrinunni 25-23 og voru komnar í góða stöðu, 2-0.

Þriðja hrina var mjög kaflaskipt en BF byrjaði með trukki og komst í 0-4 og 1-7. HK stelpurnar komust smátt og smátt inn í leikinn og voru fljótlega búnar að minnka muninn í 6-8. BF komst í 6-10 en þá fór HK vélin í gang og réðu þær algjörlega ferðinni og skoruðu 15 stig í röð.  BF tók leikhlé í stöðunni 12-10 og aftur í 19-10. Ísabella kom inná fyrir Helgu á þessum kafla hjá BF. Loksins skoraði BF aftur stig og var staðan orðin 21-11. HK var hinsvegar talsvert betra liðið í þessari hrinu og unnu örugglega 25-12 og leikinn þar með 3-0.

Leikurinn í heild tók ekki nema 60 mínútur. Talsvert vantaði upp á móttöku hjá BF þegar erfið smöss komu yfir hjá HK. Liðinu gekk vel í annari hrinu og í upphafi þriðju, en þess á milli féll allt HK megin.

BF leikur annan leik á morgun og verður það heimaleikur Ýmis í Fagralundi.