Blakfélag Fjallabyggðar lék við Aftureldingu

Blakfélag Fjallabyggðar og Afturelding B mættust í Benecta-deildinni í blaki í dag í Íþróttahúsinu Varmá í Mosfellsbæ. Afturelding vann fyrsta leikinn á Íslandsmótinu gegn Þrótti Vogum nokkuð örugglega 3-0 á meðan BF tapaði gegn Hamar 0-3. Lið BF var frekar þunnskipað í þessum leik og aðeins einn varamaður, sem skipti reglulega við Þórarinn sem hefur verið að glíma við meiðsli í baki undanfarnar vikur. Þess ber að geta að Afturelding notaði marga leikmenn úr Mizunodeildinni í þessum leik, þar sem Afturelding er með sitt aðal lið og firnasterkt.

BF byrjaði þó fyrstu hrinu glimrandi vel og komust í 0-3 en heimamenn voru fljótir að svara fyrir sig og jafna í 3-3. Jafnt var í 7-7 en þá tóku heimamenn forystu í leiknum og komst í 12-8 og tók nú BF leikhlé. Afturelding var áfram sterkari aðilinn og áttu gestirnir erfitt með að verjast öflugri sókn þeirra og uppgjöfum sem rötuðu oft beint í gólfið. Heimamenn komust í 16-10 og 20-12. Eftirleikurinn var auðveldur og unnu heimamenn fyrstu hrinuna 25-14. Talsvert var um mistök og ekki nægilega góða staðsetningu á leikmönnum BF sem gerði öflugum sóknarmönnum í Aftureldingu auðvelt fyrir að smassa beint í gólfið.

Í annarri hrinu var einnig jafnt á tölum fyrstu mínúturnar og náðu heimamenn ekki afgerandi forystu.  Jafnt var á tölum í 3-3, 7-7 og 9-9 en þá tóku heimamenn forystuna og komust í 12-9 og tók nú þjálfari BF leikhlé. Afturelding var áfram sterkara liðið og komust í 15-11 og 16-14. Sóknin hjá heimamönnum var öflug í þessum leik og erfitt að var fyrir BF að verjast þeim. Afturelding komst í 20-15 og 24-18 og unnu loks hrinuna 25-20 og voru komnir í 2-0.

Þriðja hrinan byrjaði svipuð og fyrstu tvær og var jafnræði með liðunum en Afturelding seig fljótt fram úr og komust í 8-5 og 12-6 og tók nú þjálfari BF leikhlé. Í stöðunni 16-10 tóku heimamenn öll völdin og voru mun betra liðið á vellinum og gerðu færri mistök. Afturelding komst í 19-10 áður en BF náði að svara fyrir sig og minnka muninn í 20-13. Heimamenn kláruðu hrinuna frekar auðveldlega og unnu 25-16 og leikinn örugglega 3-0.

BF vantar meiri breidd á bekkinn þegar leikmenn eiga ekki sinn besta dag og þurfa hvíld. Þrátt fyrir meiðsli hjá Þórarni þá átti hann ansi margar reddingar í lágvörn og bjargaði mörgum stigum. Of mikið var gert af mistökum í leiknum hjá BF sem er ekki í boði gegn svona góðu liði eins og Aftureldingu.

BF leikur næst við HK-B á morgun kl. 12:00 í Fagralundi í Kópavogi.