Blakfélag Fjallabyggðar í heimsókn í Hveragerði – Umfjöllun í boði Torgsins

Torgið, veitingahús á Siglufirði er aðalstyrktaraðili umfjallanna um Blakfélag Fjallabyggðar í vetur í 1. deild karla og 2. deild kvenna.  Það eru hjónin Daníel Pétur Baldursson matreiðslumaður og Auður Ösp Hlíðdal Magnúsdóttir sem standa að baki veitingastaðnum Torginu á Siglufirði. Torgið er lítill, notalegur og fjölskylduvænn veitingastaður í hjarta Siglufjarðar.

Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar er í heimsókn í Hveragerði þessa helgina og mætir heimamönnum í Hamar-B í tveimur leikjum. Fyrri leikurinn var í dag, en lið Hamars er vel skipað og var liðið búið að spila 7 leiki og vinna 1 fyrir þennan leik en BF var búið að leika 4 leiki og áttu enn eftir að vinna hrinu og leik á Íslandsmótinu. Jason Ívarsson fyrrum formaður BLÍ var dómari leiksins. Reynsluboltinn Jón Ólafur Valdimarsson er uppspilari Hamars, en hann er einn reynslumesti blakspilari landsins í efstu deildum í dag.

BF hélt í við Hamar fyrstu mínúturnar í fyrstu hrinunni en jafnt var í stöðunni 7-7 en þá settu heimamenn í fluggír og tóku afgerandi forskot og skoruðu 11 stig í röð og voru komnir í 18-7. BF skoraði þá 4 stig í röð og breyttu stöðunni í 18-11. Hamar komst í 21-11 og 24-13 og kláruðu hrinuna 25-15 og höfðu talsverða yfirburði á hrinunni.

Í annari hrinu komst BF yfir í stöðunni 5-7 en þá skoraði Hamar 8 stig í röð og tók BF leikhlé í stöðunni 13-7. Hamar komst í 18-10 en BF minnkaði muninn í 18-13. Hamar komst í 20-13 og 21-16 og kláruðu hrinuna aftur örugglega 25-18.

Þriðja hrinan var líklega besta hrinan hjá BF sem náðu forskoti og áttu gott spil.  Staðan var jöfn 9-9 en þá skoraði BF 4 í röð og komust yfir 9-13. BF skoraði áfram og komust í 11-16. Heimamenn áttu þá góðan kafla og skoruðu 7 stig gegn 1 frá BF og var staðan orðin 18-17. Nú var komin spenna í leikinn og var aftur jafnt 19-19 og 20-20. Heimenn voru þó sterkari á lokamínútum hrinunnar og kláruðu leikinn 25-20 og unnu leikinn örugglega 3-0.

BF er því enn án stiga í deildinni eftir 5 leiki. Liðin mætast aftur á morgun, sunnudaginn 12. desember kl. 13:00 í Íþróttahúsinu í Hveragerði.