Blakfélag Fjallabyggðar heimsótti Vestra á Ísafirði

Karla- og kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar mættu liði Vestra í dag í íþróttahúsinu Torfnesi á Ísafirði. Leikur karlanna hófst á undan en lið Vestra er á toppi deildarinnar og er með betri liðum í deildinni. Lið BF mætti frekar þunnskipað til leiks og var enginn varamaður í hópnum og vantaði meðal annars Marcin og Daníel Pétursson.

Karlaliðið

Heimamenn í Vestra byrjuðu leikinn betur og komust í 4-1 þegar BF tók leikhlé. Vestri komst í 8-2 en þá kom góður kafli hjá BF sem skoruðu sex stig í röð og jöfnuðu leikinn í 8-8. Vestri skreið áfram fram úr og komst í 16-10 og 20-13. Svo fór að heimamenn kláruðu hrinuna 25-19.

Í annari hrinu byrjaði BF kröftulega og gáfu allt í leikinn og komust í 0-4 og 4-8. Í stöðunni 7-10 kom góður kafli hjá Vestra sem skoraði sex stig í röð og breyttu stöðunni í 13-10. BF skoraði þá fjögur stig í röð og komust yfir 13-14. Liðin héldu áfram að skiptast á að skora nokkur stig í röð og 17-14 og 19-15 fyrir Vestra, en þá skoraði BF næstu fjögur stigin og staðan 19-19. Heimamenn voru sterkari á endasprettinum og unnu 25-21 og voru komnir í 2-0.

Í þriðju hrinu voru BF sterkara liðið og leiddu nánast alla hrinuna. Staðan var 2-4 og 3-7 í upphafi leiks. BF leiddi áfram 7-12 og 10-14 en þá beit Vestri frá sér og minnkaði muninn í 13-14 og tók þá BF leikhlé. BF gáfu ekkert eftir og komust í 14-18 og 18-22. BF var nú sterkara í lok hrinunnar og unnu 18-25 og staðan orðin 2-1.

Fjórða hrinan var frekar jöfn en Vestri leiddi þó nánast alla hrinuna en komst aldrei langt á undan BF. Staðan var 2-3 fyrir BF í upphafi hrinunnar og var það í eina skipti sem þeir komust yfir í hrinunni.  Vestri komst í 6-4 og 9-5 og tók þá BF leikhlé. Vestri leiddi áfram og var staðan fljótlega 13-9 og 17-12. BF gékk erfiðlega að minnka forskotið í seinna hluta hrinunnar og var forskotið öruggt. Vestri komust í 22-17 og gerðu síðustu þrjú stigin og kláruðu leikinn 25-17 og unnu 3-1.

Kvennaliðið

Kvennaliðinu gekk ekki vel í sínum leik en Vestri var með talsvert sterkara lið. BF stelpurnar byrjuðu þó fyrstu hrinuna af krafti og komust í 0-4 og 1-5 en þá tók Vestri yfirhöndina og komu af miklum krafti til baka. Vestri breytti stöðunni í 10-5 og tóku BF stelpurnar tvö leikhlé með stuttu millibili á þessum leikkafla. Yfirburðir Vestra voru miklir til loka hrinunnar og komust í 16-7 og 21-8. Lokatölur í fyrstu hrinunni voru 25-9 fyrir Vestra.

Í annari hrinu var leikurinn aðeins jafnari í upphafi en Vestri tók svo öll völd eftir sem leið á hrinuna. Vestri komst í 6-2 og 12-6 og erfiðlega gekk fyrir BF að sækja stigin. Staðan var 16-8 og 19-9 og loks 23-11. BF skoraði þá fjögur stig í röð og breyttu stöðunni í 23-15. Vestri vann þó hrinuna 25-16 og voru komnar í 2-0.

Þriðjan hrinan var líka hálfgerð einstefna og byrjuðu Vestra stelpur vel kom komust í 3-0 og 6-3. Í stöðunni 7-5 tók Vestri aftur afgerandi forystu og komust í 16-6. BF stelpur skoruðu þá fjögur stig í röð og breyttu stöðunni í 16-10. Vestri átti næstu fjögur stig og var það staðan orðin erfið fyrir BF, 20-10.  BF stelpur komust þó í 23-15 en hrinunni lauk 25-15 og 3-0 fyrir heimakonur.