Blakfélag Fjallabyggðar framlengir samninga við aðalstyrktaraðila

Blakfélag Fjallabyggðar hefur skrifað undir áframhaldandi samstarfssamning við Genís og Sigló hótel.
Genís (Benecta) og Sigló Hótel hafa verið aðalstyrktaraðilar Blakfélags Fjallabyggðar (BF) frá stofnun félagsins. Síðasti samningur rann út í lok árs 2019. Núverandi samningur er til þriggja ára eða til 31. desember 2022.
Samningurinn er Blakfélagi Fjallabyggðar gríðarlega mikilvægur í þeirri uppbyggingu sem félagið er í en árið 2019 stunduðu hátt í 190 iðkendur blak í lengri eða skemmri tíma hjá félaginu, þar af 80 iðkendur 18 ára og yngri.
Samningurinn tengist ýmsum viðburðum sem BF stendur fyrir, eins og Sigló Hótel – Benecta mótið sem fer fram í febrúarlok ár hvert. Einnig tengist samningurinn m.a. Benectamótinu í strandblaki og paramóti Sigló Hótels. Síðast en ekki síst þá tengist þessi samningur Steinöld 2020 sem fram fer í Vestmannaeyjum 30. apríl-02. maí en Blakdeild ÍBV og BF standa saman að mótshaldinu.
Á myndinni eru þau Óskar Þórðarson f.h. BF og Gunnhildur Róbertsdóttir f.h. Benecta (á myndina vantar Kristbjörgu Eddu f.h. Sigló Hótels en hún var fjarverandi).

Mynd frá Blakfélag Fjallabyggðar.
Mynd: BF/ fréttatilkynning