Blakfélag Fjallabyggðar fær nýjan þjálfara og leikur í 2. deild karla

Aðalfundur Blakfélags Fjallabyggðar fór fram í gær og á honum voru hefðbundin fundarstörf. Þar kom fram að fjárhagur félagsins er ágætur þó árið 2019 hafa verið erfitt að hluta til. Nýja stjórn skipa:  Óskar Þórðarson (formaður), Dagný Finnsdóttir, Helga Hermannsdóttir, Sigurlaug Guðjónsdóttir, Þórarinn Hannesson, Anna María Björnsdóttir (varamaður) og Berglind Ýr Birkisdóttir (varamaður).

Á fundinum kom fram að félagið er búið að ganga frá ráðningu á þjálfurum fyrir tímabilið en Gonzalo Garcia Rodriguez sem þjálfaði liðið á síðsta tímabili hefur tekið við þjálfun hjá Þrótti Nes. Kvennalið BF munu spila áfram í 1. og 3. deild á komandi tímabili en ákveðið var að skrá ekki 5. deildarliðið frá síðasta tímabili en ungu stelpurnar stóðu sig vel þar, en þær fá væntanlega næg verkefni með hinum liðunum og í sínum aldursflokkum.

Karlalið BF mun spila í 2. deildinni á komandi tímabili þar sem 1. deildin mun falla niður. Ástæðan er sú að sum lið sem hafa verið í 1. deild undanfarin ár tóku þá ákvörðun að spila í Mizuno deildinni eða fara í 2. deild á komandi tímabili og eftir stóðu einungis þrjú lið í 1. deildinni.

Á fundinum var ákveðið að kjósa ekki í strandblaksráðið, þar sem sumarið er að líða undir lok og takmarkanir í þjóðfélaginu gera það að verkum að lítið eða jafnvel ekkert verður um virkni þar á næstu vikum. Kosið verður í ráðið á næsta aðalfundi sem fyrirhugaður er í marslok árið 2021 og það ráð mun þá starfa það sumarið.

Vefurinn mun greina frá úrslitum úr 1. deild kvenna og 2. deild karla í vetur eins og síðustu árin, og ef einhver fyrirtæki vilja kaupa auglýsingar og styrkja umfjöllun, þá má hafa samband.