Björgvin Björgvinsson ráðinn þjálfari hjá Skíðadeild Tindastóls

Björgvin Björgvinsson, einn fremsti alpagreinaskíðamaður landsins, hefur verið ráðinn þjálfari hjá Skíðadeild Tindastóls. Einnig hefur Snjólaug Jónsdóttir gengið til liðs við Skíðadeildina og mun þjálfa yngstu krakkanna.

Dalvíkingurinn Björgvin Björgvinsson á glæsilegan feril að baki en hann var valinn Skíðamaður ársins 2011 hjá Skíðasambandi Íslands. Björgvin er fjórfaldur Íslandsmeistari á skíðum en síðasta vor sigraði hann í svigi, stórsvigi, samhliðasvigi og alpatvíkeppni á skíðamóti Íslands. Hann varð einnig bikarmeistari Skíðasambands Íslands. Á heimslista Alþjóða skíðasambandsins er Björgvin í 73. sæti í svigi eftir að hafa komist hæst í 51. sæti.

Að sögn Viggós Jónssonar staðarhaldara skíðasvæðisins ríkir mikil ánægja með ráðninguna hjá Skíðadeildinni og mikill fengur í því að fá slíkan reynslubolta til liðs við Skagfirðinga.

Snjólaug Jónsdóttir frá Blönduósi var ráðin til þjálfunar yngstu krakkanna. Hún á einnig rætur að rekja til Dalvíkur en hún er dóttir Jóns Halldórssonar skíðafrumkvöðuls á Dalvík.