Björgunarsveitir á Norðurlandi kallaðar út í gær

Lögreglan á Akureyri fékk í gær kl. 16:18 tilkynningu um slasaða unglings stúlku á Látraströnd, nyrst í austanverðum Eyjafirði, nánar tiltekið í botni Fossdals sem er á þekktri gönguleið af Látraströnd yfir í Keflavíkurdal. Stúlkan var talin vera með brotin upphandlegg og áverka á baki.

Leitað var til deilda Landsbjargar á Eyjafjarðarsvæðinu um aðstoð og fóru björgunarsveitaraðilar frá Grenivík, Akureyri, Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði þá þegar á staðinn, sjóleiðina, en það er eina færa leiðin þarna á staðinn. Eftir að fyrstu björgunarsveitarmenn komust í land við Látur, um klukkustund eftir að útkall barst, tók við rúmlega klukkustundar gangur til hinnar slösuðu.

Hlúið var að henni á staðnum og hún síðan flutt á börum niður í sjávarmál við Látur þaðan sem björgunarskipið Sigurvin frá Siglufirði flutti hana til Ólafsfjarðar og var komið þangað á tólfta tímanum í kvöld. Þaðan var stúlkan flutt með sjúkrabifreið til Akureyrar til aðhlynningar á Sjúkrahúsi Akureyrar. Ekki er frekar vitað um líðan stúlkunnar að svo stöddu.

Að verkefni þessu komu 37 björgunarsveitarmenn og voru fjórir björgunarbátar notaðir til að komast á staðinn og björgunarskipið Sigurvin síðan notað við að koma hinni slösuðu til byggða og gekk verkefnið almennt vel fyrir sig þó svo að það hafi tekið tæplega 7 klukkustundir.

Sigurvin
Sigurvin