Björgunarsveitir á Norðurlandi í útköllum í vikunni

Töluvert hefur verið um útköll hjá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Norðurlandi í vikunni og flest tengd ferðalöngum af ýmsum toga.

Á fimmtudagskvöld voru björgunarsveitir af Vesturlandi og úr Húnavatnssýslum kallaðar út til leitar af veiðimanni sem ekki hafði skilað sér og eftirgrennslan félaga hans ekki skilað árangri. Voru þeir félagar við veiðar í Norðlingafljóti á Arnarvatnsheiði. Um einum og hálfum klukkutíma eftir útkall fannst viðkomandi heill á húfi.

Á fimmtudag var Björgunarsveitin Stefán á Mývatni kölluð út vegna slasaðs manns á Hverfjalli. Eftir að maðurinn hafði verið deyfður fyrir flutning var hann borinn niður og í sjúkrabíl. Gekk aðgerðin vel og var leyst á rúmum tveimur klukkustundum.

Á miðvikudag voru Blanda frá Blönduósi og Strönd frá Skagaströnd kallaðar út vegna hestamanns sem hafði fallið af baki í reiðtúr við Kjalveg. Þar sem um langan veg var að fara var þyrla LHG einnig kölluð út og fór svo að hún flutti viðkomandi á sjúkrahús.

Björgunarsveitin Stefán á Mývatni var einnig kölluð út á þriðjudag vegna slasaðs ferðamanns við Leirhnjúk. Var talið að viðkomandi væri fótbrotinn. Félagar Stefáns fóru á staðinn og fluttu viðkomandi niður á veg þar sem sjúkrabíll beið.