Björgunarsveitin Tindur vill mynda vettvangsliðateymi í Ólafsfirði

Sumarið 2017 var lagður af rekstur sjúkraflutningabifreiðar í Ólafsfirði. Þá hafði Fjallabyggð hafnað því að slökkvilið byggðarlagsins myndi aðstoða íbúa Ólafsfjarðar vegna neyðarútkalla í firðinum. Því er staðan sú að engir viðbragðsaðilar eru í Ólafsfirði sem sinna bráðum veikindum eða slysum, hvorki á vegum ríkis né sveitarfélagsins. Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) hefur óskað eftir samningi við Björgunarsveitina Tind í Ólafsfirði um að stofnsetja viðbragðsteymi. Eins og staðan er nú kemur sjúkrabifreið á vettvang um 15-20 mínútum síðar ef veður er gott en allt niður í að vera ekki fyrir hendi í ófærð.

Björgunarsveitin Tindur vill umfram allt hafa sjúkrabifreið í Ólafsfirði, enda hefur hún þurft að reiða sig á hana, en þarf að horfast í augu við þá staðreynd að nú þarf að leita til hennar í neyð án þess að hún hafi undirbúning til að bregðast við. Vettvangsliðateymi sjálfboðaliða getur aldrei veitt sömu þjónustu og þjálfaðir sjúkraflutningamenn með vel búna sjúkrabifreið en myndi að sjálfsögðu auka þjónustu miðað við það ástand sem nú er.

Björgunarsveitin Tindur í Ólafsfirði er lítil björgunarsveit sjálfboðaliða og hluti af landssamtökum björgunarsveita, Landsbjörgu. Hlutverk björgunarsveita er

„að koma í veg fyrir slys og bjarga mannslífum og verðmætum. Í þeim tilgangi er öflugur hópur sjálfboðaliða til taks ef út af bregður, á nóttu sem degi, allt árið um kring.“ (https://www.landsbjorg.is/felagid)

Lög og reglugerðir um hlutverk björgunarsveita í vettvangsliðateymum eru ekki skýrar eins og staðan er og þarf að skýra  nánar. Tryggingar þær sem björgunarsveitarmenn hafa við störf sín ná ekki til allra þeirra þátta sem störf í vettvangsliðateymi snúa að. Björgunarsveitin hefur verið í samræðum við stjórn Landsbjargar vegna þessa máls sem er í samræðum við yfirvöld.

Sjálfboðaliðar í Björgunarsveitinni Tindi hafa verið reiðubúnir til að bregðast við útköllum í Ólafsfirði í samstarfi við björgunarsveitir í nágrenninu.  Hingað til hefur björgunarsveitin getað reitt sig á samstarf við aðra viðbragðsaðila á svæðinu svo sem lögreglu, sjúkrabifreið, slökkvilið, sveitarfélagið og íbúa. Við breyttar aðstæður, hefur björgunarsveitin setið uppi með að vera fyrsti viðbragðsaðili í stað sjúkrabifreiðar, komi eitthvað fyrir, þangað til hjálp berst, án þess að hafa haft tök á að mennta félaga sína eins og þörf er á, eða koma upp búnaði sem nauðsynlegt er að hafa fyrir hendi. Á sama tíma er óvissa um samstarf við íbúa, sveitarfélagið og slökkvilið sveitarfélagsins.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands hefur óskað eftir samningi við björgunarsveitina. Þeir bjóðast til að kosta auka grunnmenntun félaga sveitarinnar og aðstoða við að efla búnað þannig að hún sé betur búin. Heilbrigðisstofnunin er tilbúin til að ganga frá tryggingum björgunarsveitarmannanna sem tryggingar Landsbjargar ná ekki yfir.

Í núverandi stöðu er björgunarsveitinni vandi á höndum. Íbúar eru reiðir vegna brotthvarfs sjúkrabifreiðar og sumir þeirra vilja ekki að myndað sé vettvangsliðateymi því þeir telja að slíkt hindri baráttu fyrir því að fá sjúkrabifreið aftur í fjörðinn. Sveitarfélagið krefur heilbrigðisstofnunina um sjúkrabifreið, neitar aðstoð slökkviliðs sveitarfélagsins og krefst lausnar enda er málið á hendi hennar.

Björgunarsveitin telur að með aukinni menntun félaga sveitarinnar og virkri þátttöku í vettvangsliðateymi geti viðbrögð við áföllum eflst. Bæði hvað varðar hefðbundin útköll sveitarinnar sem og þau er snúa að vettvangsliðateymi. Telur hún að hvort sem sjúkrabifreið sé í Ólafsfirði eða ekki, þá sé aukin menntun og tækjabúnaður til góðs. Hins vegar aftekur sveitin með öllu að vera notuð sem blóraböggull íbúa, sveitarfélags eða heilbrigðisstofnunar í átökum sínum um sjúkrabifreið í Ólafsfirði.

Björgunarsveitin Tindur vill efla þjónustu við íbúa fjarðarins með öllum tiltækum ráðum og styður einnig eindregið veru sjúkrabifreiðar í Ólafsfirði.

En við núverandi stöðu er ekki lengur hægt að búa. Björgunarsveitin er tilbúin til þess að auka menntun félagsmanna og vinna að eflingu búnaðar í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Norðurlands og setja á stofn vettvangsliðateymi. En hún þarf einnig samstarf við sveitarfélagið þegar á þarf að halda eins og verið hefur.

Texti:  Tómas Atli Einarsson, Formaður, Björgunarsveitarinnar Tinds í Ólafsfirði.