Björgunarsveitir á Norðurlandi hafa verið kallaðar út vegna óveðurs í nótt og í morgun. Á Siglufirði var Björgunarsveitin Strákar á vaktinni í húsi í nótt og sinnti fjölda verkefna, m.a. losnuðu þakplötur af tveimur húsum og sólpallur fauk af stað auk þess sem ýmislegt lauslegt var á ferð í bænum. Veður hefur verið slæmt á Siglufirði en þar fór vindur hátt í 50 m/sek í verstu hviðunum í morgun.

Yfir 30 aðstoðarbeiðnir hafa borist frá því veðrið versnaði í nótt. Nú síðdegis voru 10 björgunarmenn að sinna fyrirliggjandi verkefnum. Meðal þeirra eru þrjú hús með lausar þakplötur, gluggar sem hafa sprungið og fleira á Siglufirði.

Björgunarsveitin á Dalvík er nú að störfum við að festa hlöðuþak sem var að losna og í gærkvöldi fergði Björgunarsveitin Tindur á Ólafsfirði lausa muni í bænum.

Þetta kemur fram á vef Landsbjargar.

Heimild: www.landsbjorg.is