Björg Eiríksdóttir bæjarlistamaður Akureyrar

Myndlistakonan Björg Eiríksdóttir hefur verið valin bæjarlistamaður Akureyrar 2018-2019.  Hún á að baki breiða menntun á sviði fagurlista, hugvísinda og menntavísinda frá Myndlistaskólanum á Akureyri, Kennaraháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri.

Frá árinu 2003 hefur Björg haldið átta einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga,  á Akureyri en einnig í Reykjavík og í Noregi, samhliða kennslu myndlistargreina. Í verkum sínum hefur hún fengist við mannlega tilvist, líkama og innra líf, og einnig oft við mynstur. Verkin hefur hún unnið í ýmsa miðla, s.s. málverk, þrykk, útsaum, ljósmyndir og vídeó, allt eftir hugmyndinni hverju sinni. Sjálf lýsir hún kjarna verka sinna sem birtingu á nálægð og tíma og vísar í því sambandi til orða Maurice Merleau-Pontys listheimspekings: „Ef við leyfum okkur, getum við hrifist af umhverfi okkar á djúpan hátt beint í gegnum skynjunina. Þar býr ákveðin merking og við þurfum ekki að hafa hugsað upp hugtök til að verða hennar vör.” Á starfslaunatímanum mun Björg einbeita sér að nýrri einkasýningu sem hún hefur þróað í dágóðan tíma og á rætur að rekja til meistaraprófsrannsóknar hennar, þar sem fjallað var um samskipti manna við umhverfið sitt í gegnum skynjun líkamans.

Akureyrarstofa veitir að auki heiðursviðurkenningu Menningarsjóðs og er hún veitt einstaklingum sem hafa með framlagi sínu stutt við og auðgað menningarlíf bæjarins. Í ár voru tveir einstaklingar fyrir valinu. Birgir Sveinbjörnsson fyrir framlag sitt til miðlunar sögu og menningar á Íslandi öllu og Rósa Kristín Júlíusdóttir fyrir mikilsvert og óeigingjarnt framlag til myndlistar og myndlistarkennslu á Akureyri.
Menningarfélag Akureyrar býður bæjarlistamanni ár hvert að nýta sér Menningarhúsið Hof eða Samkomuhúsið sem vettvang fyrir sýningu eða annars konar uppákomu í lok starfsársins.