Lamb Inn Travel, ferðaskrifstofa á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit, hefur hafið sölu á svokölluðum bjórferðum á Norðurlandi. Eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða ferðir þar sem þemað er bjórsmakk frá þeim brugghúsum sem finna má á Norðurlandi.
Gróskan í bjórbruggi hefur verið mikil síðustu 10 ár, eða allt frá því að Bruggsmiðjan opnaði á Árskógssandi. Síðan þá hafa tvö brugghús við Tröllaskagann opnað til viðbótar, Gæðingur í Skagafirði og Segull 67 á Siglufirði, auk þess sem hið rótgróna Viking brugghús á Akureyri hóf framleiðslu á Einstök bjór í viðbót við aðrar framleiðsluvörur undir merkjum Viking.

Lamb Inn Travel flutti inn kanadískan hóp á síðasta ári í samvinnu við Beer Lovers Tour í Toronto. Það er ferðaskipuleggjandi sem boðið hefur upp á bjórferðir innan borgarmarka Toronto en einnig sent hópa af og til til annarra landa. Hópurinn dvaldi á Íslandi í 7 daga, heimsótti m.a. Bjórhátíðina á Hólum í Hjaltadal, sem Bjórsetur Íslands heldur árlega, og smakkaði auk þess framleiðslu margra brugghúsa á landinu.
Nú eru komnar þrjár ferðir til sölu á beertours.is. Í fyrsta lagi er það ferð sem kallast Coast Line Beer Tour og er farin frá Akureyri, upp til Siglufjarðar þar sem Segull 67 verður heimsótt. Þaðan er haldið á Árskógssand þar sem Bruggsmiðjan verður heimsótt auk þess sem þjónusta Bjórbaða verður nýtt. Bjórböðin eru nýjasta viðbót við þjónustu Kalda-bruggsmiðjunnar, en þar geta gestir dýft sér í bjórbætta heita potta, innan- og utanhúss og borðað á veitingastað sem einnig verður opnaður. Frá Árskógssandi verður ekið stuttan spöl til Hjalteyrar þar sem framleiðsla Viking/Einstök verður smökkuð.
Hinar tvær ferðirnar eru meira staðbundnar í Eyjafjarðarsveit til að byrja með, en innihalda bæði bjórsmakk og tvírétta máltíð á Lamb Inn veitingahúsi á Öngulsstöðum.
Stór hringferð um Tröllaskagann verður í boði sem sérferð.