Bjórböðin Árskógssandi formlega opnuð

Bjórböðin á Árskógssandi í Dalvíkurbyggð voru formlega opnuð í dag. Staðsetning þeirra er skammt frá Hríseyjarferjunni. Bjórbað fyrir einn kostar 4900 kr. en fyrir par kostar það 9000 kr. Á staðnum er einnig veitingasalur sem getur tekið 80 gesti, en hægt er að taka á móti 14 gestum í Bjórbað á hverjum klukkutíma, en böðin eru alls 7.  Baðtíminn er 25 mínútur og slökunartími í framhaldinu aðrar 25 mínútur. Bókanir og nánari upplýsingar eru á vefnum bjorbodin.com.

Í samtali við Ragnheiði Guðjónsdóttur hjá Bjórböðunum þá sagði hún að þau reiknuðu með því að erlendir gestir yrðu um helmingur á móti íslenskum gestum. Hún reiknaði með að fólk kæmi á eigin vegum í Bjórböðin í sumar en ekki í gegnum ferðaskrifstofur, en unnið væri að því að fá bókanir fyrir sumarið 2018 í gegnum ferðaskrifstofur. Hún svaraði því einnig að um 9-10 stöðugildi væru í kringum þennan rekstur.