Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir býður sig fram í 2. sæti

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir býður sig fram í 2. sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Norðausturkjördæmi.

Bjarkey starfar sem náms­ og starfsráðgjafi og brautarstýra starfsbrautar fyrir fatlaða í Menntaskólanum á Tröllaskaga í Ólafsfirði. Hún er gift Helga Jóhannssyni og á þrjú börn.

Bjarkey hefur verið varaþingmaður frá 2004 og tekið nokkrum sinnum sæti á Alþingi. Hún hefur einnig gengt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir VG. Bjarkey hefur að auki mikla reynslu af sveitastjórnarmálum og situr í bæjarstjórn Fjallabyggðar.

Bjarkey er ötull baráttumaður og telur að efling jafnréttis kynjanna á öllum sviðum samfélagsins sé forgangsmál. Hún vill verja samfélagsleg gildi, skóla, heilbrigðisþjónustu og atvinnu. Hún vill setja velferðarmál barna, unglinga og aldraðra í forgang og hefur óbilandi trú á því að með samvinnu sé hægt að búa til þjóðfélag þar sem allir hafa jöfn tækifæri.

Bjarkey telur mikilvægt að stjórnvöld beiti sér fyrir uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs sem byggi á þekkingu og hugviti fólksins í landinu og sé í sátt við umhverfi og náttúru og stuðli um leið að byggð í öllu landinu.

„Til þessara starfa vil ég gefa kost á mér með góðu fólki í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði því nauðsynlegt er að Vinstri græn verði áfram við stjórnvölinn og tryggi þann mikilvæga árangur sem náðst hefur á kjörtímabilinu.“