Meðferðarheimilið Bjargey var formlega opnað af Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, á mánudag. Opnunin er liður í að fjölga úrræðum fyrir börn með fjölþættan vanda.

Meðferðarheimilið er ríkisrekið langtímameðferðarheimili á vegum Barna- og fjölskyldustofu ætlað stúlkum og kynsegin. Meginmarkmið meðferðarheimilisins er að veita sérhæfða meðferð vegna alvarlegra hegðunarerfiðleika, vímuefnaneyslu og meintra afbrota.

Forstöðumaður heimilisins er Ólína Freysteinsdóttir, BA í nútímafræðum og MA í fjölskyldumeðferð og náms- og starfsráðgjöf. Auk hennar starfa sem stendur 9 aðrir einstaklingar með fjölbreytta reynslu og menntun.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra:

„Við þurfum að fjölga úrræðum fyrir börn sem glíma við ýmsar áskoranir til þess að þau geti orðið farsæl þegar uppi verður staðið. Sömuleiðis þurfum við að tryggja skilvirkt eftirlit með starfseminni og er það hlutverk nýrrar Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.“

Starfsemin er hafin og á heimilinu dvelja nú tvær stúlkur en þar geta dvalið 4-5 einstaklingar hverju sinni. Lögð er áhersla á að búa þeim einstaklingum sem þar dvelja öruggt skjól og meðferð við hæfi. Á meðferðarheimilinu verður leitast við að þeir einstaklingar sem eru í meðferð fái tækifæri til að vaxa og dafna í heilbrigðu umhverfi.

Áhersla er lögð á einstaklingsmiðaða nálgun sem miðar að þörfum unglinga með alvarlegan hegðunarvanda. Stuðst er við aðferðir sem byggja á atferlismótun, hugrænni atferlismeðferð, áfallamiðuðum stuðningi, þjálfun í félagsfærni, sjálfsstjórn og félagsvænum viðhorfum. Unnið er í nánu samstarfi við aðstandendur þar sem meginmarkmiðið er að aðlaga einstakling aftur heim til forsjáraðila.

Starfsemi meðferðarheimilisins er undir eftirliti nýrrar Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála sem tók til starfa 1. janúar sl.