Bílvelta á Ólafsfjarðarvegi í gær

Ökumaður jepplings missti stjórn á bifreið sinni í hálku með þeim afleiðingum að hún valt á Ólafsfjarðarvegi skammt frá Dalvík á áttunda tímanum í gærkvöldi. Fólkið gat komið sér út úr bifreiðinni og óskað eftir aðstoð.

Það var flutt með sjúkrabíl til Dalvíkur. Lögreglan sagði að fólkið væri ekki alvarlega slasað, en það kenndi sér eymsla í baki.

Aðstæður á vettvangi voru ekki góðar að sögn lögreglu. Hálka, krapi og slydda.

Bifreiðin, sem hafnaði utan vegar, er gjörónýt.