Bikarleikur á Ólafsfjarðarvelli – upphitun í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty

Umfjöllun og upphitun fyrir leiki KF eru í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty sem eru aðalstyrktaraðilar, smellið á tenglana til að sjá vöruframboðið og þjónustu þeirra á netinu.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Haukar frá Hafnarfirði mætast í 32 liða úrslitum Mjólkurbikarsins í dag á Ólafsfjarðarvelli kl. 18:00.  Haukarnir eru stórveldi í handboltanum, en hafa ekki náð sömu hæðum í knattspyrnunni. Liðið leikur með KF í 2. deildinni og eru í 8. sæti með 9 stig, en KF er í 6. sæti með 11 stig. Það má búast við jöfnum bikarleik á Ólafsfjarðarvelli. Stuðningur áhorfenda skiptir öllu máli og fólk er hvatt til að mæta á völlinn og láta í sér heyra.

Haukar hafa fengið þægilega mótherja í Mjólkurbikarnum fram að þessum leik en þeir unnu KM 0-4 í fyrstu umferð og Stokkseyri 0-7 í 2. umferð. Liðið hefur ekki fengið á sig mark í bikarnum í ár. Annað mál er í deildinni, en þar hefur liðið skorað 14 mörk og fengið á sig 13.

KF sigraði Dalvík 2-3 í bikarnum í 2. umferðinni, en liðið sem kemst áfram í þessum leik fer í 16 liða úrslit.

KF-vélin hefur aðeins hikstað í síðustu leikjum en liðið hefur ekki sigrað í fjórum deildarleikjum, en gert tvö jafntefli og tvö töp.

Haukarnir hafa aðeins unnið einn leik af síðustu fimm deildarleikjum en gert jafntefli í síðustu tveimur leikjum.

Haukar enduðu með 10 stigum meira en KF í deildinni í fyrra og höfnuðu í 5. sæti en KF í 6. sæti. Haukar unnu heimaleik KF 0-3 í fyrra en KF vann útileikinn 1-2 á Ásvöllum í Hafnarfirði.

Nokkrir leikmenn KF voru fjarverandi í síðasta leik og náðist ekki að fullmanna bekkinn. Þar voru meiðsli og veikindi að herja á nokkra leikmenn.

Liðin mætast aftur í deildinni 10. júlí.

Siglufjarðar Apótek