BF vann Völsung 3-0 á Siglufirði

Völsungur heimsótti Blakfélag Fjallabyggðar í gær en liðin léku í 1. deild karla í blaki í íþróttahúsinu á Siglufirði. Fyrir leikinn var Völsungur í neðsta sæti og voru enn án sigurs en BF var í efri hluta deildarinnar. Völsungur kom með fámennt lið til Siglufjarðar og var enginn varamaður á bekknum hjá þeim. BF var með góðan hóp í þessum leik, en 10 leikmenn voru klárir.

Fyrsta hrina var ansi löng og stóð í 36 mínútur. Leikurinn var nokkuð jafnt þar til líða fór á hrinuna, en þá tókst BF að ná um öruggu forskoti. Jafnt var á tölunum 3-3, 6-6 og 11-11. Eftir þennan kafla tókst BF að ná upp 3ja-4ja stiga forskoti og hafði yfirhöndina. BF komst í 16-12 og 20-16 og tók þá Völsungur leikhlé til að reyna komast aftur inn í leikinn. Í stöðunni 20-17 skoraði BF fjögur stig í röð og lagði grunninn að sigrinum í hrinunni. BF vann hrinuna 25-18 og var komið í 1-0 í leiknum.

Í annari hrinu þá byrjaði BF betur og komst í 5-1 og 10-4 en þá tók Völsungur leikhlé.  BF komst í 12-6, 15-9 og 19-11. Erfiðlega gekk að sækja síðustu stigin hjá BF en Völsungur kom til baka og skoraði sex stig í röð og minnkuðu muninn í 22-20 og þá tóku heimamenn leikhlé.  BF átti svo síðustu þrjú stigin og vann hrinuna að lokum 25-20 og var staðan orðin 2-0.

Í þriðju hrinu var meira jafnræði mest alla hrinuna og tókst BF ekki að ná upp forskoti fyrr en leið á hrinuna. Jafnt var á tölunum 3-3, 5-5 og 8-8. Í stöðunni 11-11 tókst BF að sigla aðeins framúr og komust í 14-11 og loks 18-15.  Áfram sótti BF stigin og komst í 22-17 með góðum kafla og tóku þá gestirnir leikhlé. Smá spenna kom upp í lokin en Völsungur minnkaði muninn í 24-22 en lengra náðu þeir ekki og heimamenn unnu sanngjarnan sigur 25-22 og 3-0.

BF komst í annað sæti deildarinnar með þessum sigri en liðin fyrir neðan hafa leikið færri leiki.