Blakfélag Fjallabyggðar keppti við HKarlana úr Kópavogi í dag á Siglufirði í 1. deildinni í blaki. Gestirnir byrjuðu leikinn vel og komust í 1-4 og 5-9 en þá tók við góður kafli heimamanna og jöfnuðu þeir metin í 9-9 og komust yfir í 10-9 og tóku þá gestirnir leikhlé til að ræða málin. Jafnt var á næstu tölum en í stöðunni 13-13 þá tók BF völdin á vellinum og komst í 17-13. Kom þá mjög góður kafli BF og komust þeir í 21-14. Gestirnir svöruðu fyrir sig og minnkuðu muninn í 21-18 og 22-19, en BF kláraði hrinuna og unnu 25-19 eftir töluverða baráttu.

Í annari hrinu var mikið jafnræði með liðunum en BF komst þú í 3-1 í upphafi og gestirnir svöruðu og komust í 3-5 og áfram var jafnræði með liðunum í stöðunni 7-7, 9-9 og 14-13 en þá tóku gestirnir leikhlé. Kom núna góður kafli BF manna, og komust þeir í 19-15 en gestirnir skoruðu þá þrjú stig í röð og staðan orðin 19-18 og tóku þá BF menn leikhlé. Áfram var jafnt út hrinuna en BF menn leiddu þó og var staðan 22-20 og 24-22 og töluverð spenna síðustu mínútur hrinunnar, en heimamenn kláruðu hrinuna 25-22.

Í þriðju hrinu var BF miklu betra og sigurinn aldrei í hættu. BF komst í 6-2 og tóku þá gestirnir strax leikhlé til að stilla saman strengi en það dugði skammt. BF komst í 8-3 og 10-5. Kom þá sterkur kafli heimamenna sem komust í 14-5 og 17-6 og tóku þá gestirnir annað leikhlé. BF var áfram með forystu síðustu mínútur hrinunnar og komust í 20-8 og endaði hrinan 25-8 og glæsilegur 3-0 sigur Blakfélags Fjallabyggðar gegn HKörlum.