Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar kom suður í gær og keppti við Fylki í Árbænum. Tvo sigra þarf til að leika til úrslita í 1. deild kvenna. Síðari leikurinn fer fram á Siglufirði sunnudaginn 2. maí.

BF mætti með sitt sterkasta lið í Fylkishöllina til að sækja úrslit gegn Fylki. Fyrsta hrina var jöfn framan af en Fylkir hafði undirtökin undir lok hrinunnar. Jafnt var á tölum í 6-6, 8-8 og 15-15, en hvorugu liðinu tókst að ná afgerandi forystu.  BF komst yfir 17-18 en Fylkir svaraði með 5 stigum og lögðu grunninn að sigrinum í hrinunni, staðan 22-18. BF minnkaði muninn í 22-20 en aftur náði Fylkir forystu í 24-20 og unnu hrinuna 25-21.

BF stelpurnar komu mun ákveðnari til leiks í annari hrinu og þá gengu hlutirnir vel upp og spilið var gott. BF komst í 0-4, 2-8 og 4-12. Fylkir komst ekki alveg í gang í þessari hrinu og BF náði góðu forskoti 9-17 en þá skoraði Fylkir 6 stig í röð og staðan því orðin 15-18.  BF náði góðum kafla og komst í 15-21 og tók þá Fylkir leikhlé. Fylkir minnkaði muninn í 18-22 en BF kláraði hrinuna örugglega 18-25 og var staðan orðin 1-1.

Þriðja hrina var jöfn og fór í upphækkun, liðin skiptust á að ná forystu.  BF komst í 1-4 en Fylkir jafnaði 4-4 og 8-8 en þá tók BF leikhlé.  Jafnt var í 14-14, 16-16 en þá tók við mjög spennandi kafli þar sem allt var í járnum. BF komst í 16-18 og 18-20. Fylkir skoraði þá þrjú dýrmæt stig, 21-20 og aftur tók BF hlé.  BF jafnaði 21-21, en Fylkir komst yfir 23-21. Fylkir komst í 24-22 og vantaði aðeins eitt stig, en BF stelpurnar gáfust ekki upp á endasprettinum og jöfnuðu 24-24 og komust yfir 24-25. Fylkir jafnði 25-25 en BF náði í síðustu tvö stigin og vann 25-27 í upphækkun, og staðan orðin 1-2.

BF þurfti aðeins eina hrinu í viðbót til að vinna leikinn og þær settu allt í leikinn.  BF komst í 2-5 en svo var jafnt í 9-9. Þá kom góður kafli hjá BF sem og var staðan orðin 9-14. Fylkir kom þá til baka og jafnaði 15-15 og 17-17. BF átti þá mjög góðan endasprett og náðu forystunni 17-22 og 18-24. Fylkir tók leikhlé, en BF gaf ekkert eftir og unnu stelpurnar 20-25 og leikinn 1-3.

Frábær endurkomusigur hjá stelpunum. Þær þurfa núna sigur á heimavelli í næsta leik til að leika til úrslita.