BF vann Fylki og leikur til úrslita

Blakfélag Fjallabyggðar mætti Fylki öðru sinni í undanúrslitaleik á Íslandsmóti 1. deildar kvenna í blaki. BF hafði unnið fyrir leikinn 1-3 á heimavelli Fylkis, en nú var komið að heimaleik BF. Liðið sem ynni tvo leiki í þessu einvígi myndi keppa til úrslita. Það var því von á mikilli baráttu og jöfnum leik.

Fylkiskonur komu mjög ákveðnar til leiks og voru með forystu í upphafi leiks. Staðan var 1-5 og tók þá BF leikhlé og skömmu síðar var leikurinn jafn 6-6 og 7-7 en þá náði Fylkir aftur góðri forystu. Fylkir komst í 7-12 og aftur tók BF hlé til að stilla saman strengi. BF komst hægt og sígandi inn í leikinn og náðu að lokum að jafna í stöðunni 18-18. Allt var í járnum á lokamínútum fyrstu hrinu og jafnt var 21-21, 22-22 og 23-23. BF stelpur náðu síðustu tveimur stigunum og unnu hrinuna 25-23, eða með minnsta mun.

Önnur hrina var líka jöfn en BF byrjaði núna af meiri krafti og komust yfir 3-0, 7-2 og 10-5. Fylkir komst betur inn í leikinn og minnkuðu muninn í 12-10 og jöfnuðu 13-13. Á þeim punkti tók BF leikhlé. Leikurinn jafnaðist út og var jafn fram á lokamínútur hrinunnar.  Fylkir komst í 16-18 með því að skora fjögur stig í röð og aftur tók BF gott leikhlé. BF jafnaði aftur og komst yfir 22-19 með því að skora fjögur stig í röð og mjög góðum tímapunkti. Fylkir tók þá leikhlé en það dugði ekki til að hægja á BF stelpunum sem voru í góðum gír og kláruðu hrinuna 25-21 og voru komnar í 2-0.

BF byrjaði mjög sterkt í þriðju hrinu og komust í 6-0 og 9-3. Allt gekk upp hjá BF en lítið hjá Fylki á þessum kafla og var staðan 15-7 og 17-9.  Fylkir komst þá hægt og rólega inn í leikinn en BF hélt einnig áfram að taka stig. Staðan var 21-15 þegar Fylkir skorar 6 stig í röð og setur mikla spennu í leikinn í stöðunni 21-21. BF tók hér leikhlé á þessum tímapunkti. Aftur var jafnt 22-22 en BF stelpurnar voru sterkari á lokamínútunum og náðu í stigin sem vantaði og unnu hrinuna 25-23 og leikinn 3-0.

Glæsilegur leikur hjá BF stelpunum og þær leika til úrslita gegn Völsungi í 1. deild kvenna. Völsungur er líklega með sterkasta liðið í deildinni en þær unnu 8 leiki af 9 og töpuðu aðeins einum leik í deildarkeppninni. Þær unnu Ými í hinum undanúrslitaleiknum sem fram fór í dag.