BF vann Fylki í Árbænum

Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar lék við Fylki í dag í Árbænum. Liðin mættust fyrir viku síðan á Siglufirði þar sem BF vann örugglega 3-0. BF voru staðráðnir í að vinna í dag eftir naumt tap gegn HK í gær. Hægt er að lesa umfjöllun um þann leik hér á síðunni.

BF byrjaði fyrstu hrinuna mjög vel og voru komnir með gott forskot 3-8 þegar Fylkir tók leikhlé eftir að BF hafði skorað 4 stig í röð. BF hélt áfram að auka forskotið og komust í 5-12, 7-14 og 10-16. BF hafði yfirburði alla hrinuna og vann nokkuð þægilega 14-25 og þurftu ekki að nota leikhlé í hrinunni og voru komnir í 0-1.

Í annari hrinu Byrjaði KF með látum og komust í 0-5 þegar Fylkir tekur leikhlé, en BF hélt áfram og komust í 0-8. Þegar staðan var 1-12 kom góður kafli hjá Fylki þar sem þeir skoruðu sex stig í röð og breyttu stöðunni í 7-12 og tók nú BF leikhlé. Fylkir neitaði að gefast upp og í stöðunni 8-15 skoruðu þeir fjögur stig í röð og var staðan skyndilega orðin 12-15. Í stöðunni 18-22 tekur Fylkir leikhlé, en það dugði skammt því BF vann hrinuna 19-25 og voru komnir í 0-2 !

Fylkir byrjaði vel í þriðju hrinu og komust í 6-2 þegar BF tekur leikhlé. Fylkir leiddi áfram og komust í 10-5 en BF minnkaði muninn í 13-11. Fylkir hélt áfram að vera sterkari aðilinn í þessari hrinu og leiddu áfram í stöðunni 16-13, 18-16 og 19-18. Fylkir skoraði svo næstu þrjú stig og breyttu stöðunni í 22-18 þegar BF tók leikhlé. Fylkir var sterkari í lokin og unnu naumlega 25-23.

Í fjórðu hrinu var mikið jafnræði í leiknum og skiptust liðin á að ná forystu. Fylkir komst í 8-5 þegar BF tók leikhlé. Jafnt var á tölum í 12-12 og 15-15 og Fylkir komst svo í 19-16 þegar BF tók leikhlé. Áfram skoraði Fylkir og komust þeir í 21-16. Kom nú góður kafli BF sem skoruðu sex stig í röð og breyttu stöðunni í 21-22 og í millitíðinni tók Fylkir leikhlé.  Fylkir jafnaði í 22-22 en BF átti síðustu þrjú stigin og unnu hrinuna 22-25 og leikinn 1-3.