BF vann Álftanes í fimm hrinu leik

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar lék við Álftanes B í Garðabæ í dag. Leikurinn var jafn og fjörugur og fór í fimm hrinur. Leikurinn var í lengri kantinum og tók 107 mínútur.

BF stelpurnar voru seinar í gang og komust heimastelpur í 6-0 og tók þá þjálfari BF leikhlé til að stoppa þetta áhlaup. BF minnkaði muninn í 9-4 en Álftanes komst í 13-4 með góðu spili. BF minnkaði muninn í  15-10 en heimakonur komust aftur í 19-10. BF skoraði þá fjögur í röð og  var staðan orðin 19-14. BF stelpur reyndu hvað þá gætu og minnkuðu aftur muninn í 20-16 og 22-18 en náðu ekki nær. Álftanes vann hrinuna 25-18 og voru komnar í 1-0.

Önnur hrina gekk mun betur hjá BF og leiddu þær leikinn mest alla hrinuna. Það var þó jafnt framan af og var staðan 9-10 þegar gestirnir skoruðu fjögur í röð og komust í 13-10. BF tók hér leikhlé og komu mjög sterkar til baka og náðu upp forskoti í stöðunni 15-18 en liðið skoraði þá sex stig í röð. Gestirnir sóttu í sig veðrið og voru lokamínúturnar í hrinunni spennandi. Álftanes minnkaði muninn í 18-21 og 21-22.  BF komst þá í 21-24 og tóku þá gestirnir leikhlé. BF kláraði hrinuna glæsilega og unnu 22-25 og jöfnuðu leikinn í 1-1.

BF hafði mikla yfirburði í þriðju hrinu og náðu upp öruggu forskoti með góðu spili. BF komst í 5-9 og 8-10 en liðið skoraði þá fimm stig í röð og var staðan orðin 8-15 og fljótlega 10-22. Miklir yfirburðir BF á þessum kafla. BF vann svo 12-25 og voru komnar í 1-2 og vantaði nú aðeins eina hrinu til að sigra  leikinn.

Fjórða hrina var jafnari en Álftanes náði þó upp betri takti og voru í forystu mestan tíman. Staðan var 11-6 og tók þá BF hlé og minnkuðu muninn í 13-12. Álftanes komst í 20-16 og 22-17. BF minnkaði þá muninn í 23-20 en heimakonur unnu hrinuna 25-20 og var staðan orðin 2-2, og var því leikin oddahrina.

Oddahrinan var jöfn og spenandi en BF stelpur voru sterkari í lokin. Jafnt var á tölum 7-7 og 10-10. BF skoraði þá fjögur dýrmæt stig og voru nálægt sigri, staðan 10-14. Heimakonur skoruðu þá tvö stig og staðan var þá 12-14 en BF átti lokastigið og unnu dýrmætan sigur, 12-15 og leikinn 2-3.