BF tók á móti HK á Siglufirði – Umfjöllun í boði Torgsins

Torgið, veitingahús á Siglufirði er aðalstyrktaraðili umfjallanna um Blakfélag Fjallabyggðar í vetur í 1. deild karla og 2. deild kvenna.  Það eru hjónin Daníel Pétur Baldursson matreiðslumaður og Auður Ösp Hlíðdal Magnúsdóttir sem standa að baki veitingastaðnum Torginu á Siglufirði. Torgið er lítill, notalegur og fjölskylduvænn veitingastaður í hjarta Siglufjarðar.

Umfjöllun

Blakfélag Fjallabyggðar og HK-b mættust í íþróttahúsinu á Siglufirði í dag á Íslandsmótinu í 1. deild karla í blaki.

BF strákarnir seldu sig dýrt í fyrstu hrinu og léku vel og var mikil spenna í lok hrinunnar. BF komst í 3-0 og 6-3 áður en gestirnir jöfnuðu 6-6. BF náði þá góðum kafla og komust í góða forystu 14-9 og tók þá HK leikhlé og reyndu að stilla saman strengi. HK kom þá til baka og skoruðu 7 stig gegn einu frá BF og breyttu stöðunni í 15-16. Framundan voru spennandi mínútur og var leikurinn í járnum, jafnt var á flestum tölum en BF tók hlé í stöðunni 21-22. Jafnt var 23-23 en HK tók tvö síðustu stigin og unnu 23-25 eftir mikla baráttu og voru komnir í 0-1.

Önnur hrina byrjaði einnig vel hjá BF sem komst í 3-0 og 5-2 en HK jafnaði 6-6. BF komst yfir 10-8 en HK jafnaði 13-13. Við tók góður og mikilvægur kafli hjá HK sem skoraði sex stig í röð og komust í 13-19 og tók BF leikhlé í þessu áhlaupi. BF minnkaði muninn í 17-21 og 18-22. HK voru sterkari á lokakaflanum í þessari hrinu og unnu 19-25 og voru komnir í 0-2.

HK strákarnir byrjuðu með látum í þriðju hrinu og komust í 0-4 og 3-7. BF kom til baka og minnkaði muninn í 7-8 en HK héldu góðu forskoti og komust í 10-14 og tók BF nú leikhlé. HK komst í 14-19 og 15-21. BF tókst ekki að komast nær þeim og HK vann hrinuna nokkuð örugglega 17-25 og leikinn 0-3.

Liðin mætast aftur í hádeginu á morgun á Siglufirði og á þriðjudaginn mætir BF liði Völsungs á Húsavík.