Torgið, veitingahús á Siglufirði er aðalstyrktaraðili umfjallanna um Blakfélag Fjallabyggðar í vetur í 1. deild karla og 2. deild kvenna.  Það eru hjónin Daníel Pétur Baldursson matreiðslumaður og Auður Ösp Hlíðdal Magnúsdóttir sem standa að baki veitingastaðnum Torginu á Siglufirði. Torgið er lítill, notalegur og fjölskylduvænn veitingastaður í hjarta Siglufjarðar.

Umfjöllun

Blakfélag Fjallabyggðar og Hamar-B mættust í íþróttahúsinu á Siglufirði í dag í 1. deild karla í blaki og mætast liðin einnig á morgun. Hamar frá Hveragerði er með öflugt og reynslumikið lið og voru í 3. sæti deildarinnar fyrir þennan leik. Deildin er orðin að tvískipt núna, KA, HK og Hamar eru sterkustu liðin í deildin og skipa efstu tvö sætin, en Völsungur og BF hafa átt erfitt með að sækja sigra á þessu móti og eru í neðstu tveimur sætunum. Það var því búist við erfiðum leik í dag en Hamar er með bræðurna Kristján og Hafstein Valdimarssyni sem eru gríðarlega öflugir blakmenn. BF er í uppbyggingarstarfi og margir ungir strákar að taka við stórum hlutverkum í liðinu á þessu tímabili.

BF komst þrisvar yfir í fyrstu hrinu og það var á allra fyrstu mínútum leiksins en Hamar komst fljótlega í 4-11 með góðum leik og tók BF hlé í því áhlaupi. Hamar komst í 10-17 og 12-20, en BF gaf allt í þetta og minnkaði muninn í 19-23 og settu smá spennu í leikinn aftur. Hamar vann hrinuna hins vegar 19-25 og voru komnir í 0-1.

Önnur hrina var algjör eign Hamarsmanna, en aftur komst BF yfir í upphafi hrinunnar en Hamar komst strax í gang og komust í 2-7 áður en BF minnkaði muninn í 6-8 og 8-9. Hamar setti þá meiri kraft í sóknina og komust í 11-15 og tók þá BF hlé. Hamarsliðið var í miklum ham og allt gekk upp í þessari hrinu og unnu þeir með miklum mun, 12-25 og voru komnir í 0-2.

BF strákarnir gáfu allt í þriðju hrinuna og aftur komust þeir aðeins yfir í upphafi hrinunnar áður en Hamar tók aftur völdin. Staðan var jöfn 3-3 og 6-6 en þá hrökk Hamar í gang og komust í 6-12 og tók BF hlé.  BF minnkaði muninn 13-15 og 16-18 og var leikurinn í járnum á þessum kafla.  Hamarsmenn settu þá allt í sóknina og komust í 17-23 og aftur tók BF hlé.  Hamar kláraði svo hrinuna 18-25 og leikinn 0-3.

 

BF
Mynd: BF