Torgið, veitingahús á Siglufirði er aðalstyrktaraðili umfjallanna um Blakfélag Fjallabyggðar í vetur í 1. deild karla og 2. deild kvenna.  Það eru hjónin Daníel Pétur Baldursson matreiðslumaður og Auður Ösp Hlíðdal Magnúsdóttir sem standa að baki veitingastaðnum Torginu á Siglufirði. Torgið er lítill, notalegur og fjölskylduvænn veitingastaður í hjarta Siglufjarðar.

Umfjöllun

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar lék við Þrótt Reykjavík í dag á Íslandsmótinu í 2. deild í blak. Leikurinn fór fram í Íþróttahúsinu á Siglufirði.

Þróttur mætti með þunnskipað lið og hafði engan varamann á bekknum í þessum leik. Slíkt getur reynst illa komi upp meiðsli eða mikil þreyta sé eftir marga leiki á skömmu tíma.

BF liðið hafði úr tíu konum að velja í þennan leik og breiddin góð.

Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar í fyrstu hrinu og var jafnt á tölum 4-4, 6-6 og 8-8. BF seig þá framúr hægt og örugglega og komust í 13-9 og tóku þá Þróttarastelpurnar hlé. BF komst í 17-12 með góðum leik og höfðu yfirhöndina út hrinuna. Í stöðunni 21-13 tók Þróttur aftur hlé en liðið klóraði aðeins í bakkann en BF vann með nokkrum yfirburðum 25-17 og var komið í 1-0.

BF byrjaði aðra hrinu af miklum krafti og komust í 7-1 og 11-3 áður en Þróttur minnkaði muninn í 11-6. BF spilaði áfram vel og komust í 17-8 og tók þá Þróttur aftur hlé. Þróttur minnkaði muninn í 19-12 og 23-15 áður en BF kláraði hrinuna af öryggi 25-17 og unnu leikinn örugglega 2-0.

Frábærlega vel gert hjá BF og öruggur sigur.