Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar heimsótti Þrótt í Vogum í Vogabæjarhöllinni í dag í Benecta deildinni í blaki. Leikurinn var gríðarlega spennandi og flestar hrinur mjög jafnar.  Gonzalo þjálfari BF spilaði sínar fyrstu mínútur þegar hann skiptir sér inná í tveimur hrinum, en hann var eini varamaður liðsins í þessum leik.  Lið Þróttar í Vogum var skipað ellefu erlendum leikmönnum í þessum leik og virðast þeir hafa úr nægum mannskapa af velja. Jason Ívarsson fyrrum formaður BLÍ dæmdi leikinn og voru 30 áhorfendur í stúkunni.

Í fyrstu hrinu var allt í járnum þar til undir lok hrinunnar.  Jafnt var í 5-5, 8-8 og 12-12. Heimamenn tóku leikhlé í stöðunni 12-15 en þá hafið BF gert fjögur stig í röð.  Kom nú góður kafli hjá Þrótti sem minnkuðu muninn í 14-16 og jöfnuðu 16-16. Aftur var jafnt í 18-18 en urðu þá kaflaskil og BF var mun sterkara liðið í lokin og unnu hrinuna örugglega 18-25 með því að skora síðustu 7 stigin.

Í annari hrinu leiddu heimamenn mest allan tímann en náðu þó aldrei góðu forskoti á BF. Staðan var 6-3, 9-4 og 11-6. Átti þá BF góðan kafla og jöfnuðu 14-14 og tóku heimamenn leikhlé. Aftur var jafnt í 17-17 en skoruðu þá Þróttarar 4 stig á móti einu og komust í 21-18 og tók nú BF leikhlé. Mikil spenna var í lok hrinunnar og kom þjálfari BF inná fyrir Guðjón Fannar í stöðunni 23-23 til að freista þess að sigra hrinuna. Heimamenn voru þó sterkari í lokin og sigruðu 25-23 og jöfnuðu 1-1.

Í þriðju hrinu skiptust liðin á að ná forystu og var leikurinn jafn alla hrinuna til enda. BF komst í 5-7 en Þróttur svaraði strax og komust í 9-7 með góðu spili. Áfram var jafnt næstu mínútur en í stöðunni 15-15 náði Þróttur undirtökunum og skoruðu fjögur stig á móti einu og komust í 19-16. BF tók þá leikhlé til að freista þess að brjóta upp leikinn. Þróttur var hins vegar sterkari í lok hrinunnar og komust í 23-19 og tók þá BF aftur leikhlé og inná kom Gonzalo fyrir Guðjón Fannar. BF náði góðum leik og jöfnuðu 23-23 með fjórum stigum í röð, en það voru heimamenn sem unnu hrinuna 25-23 og voru komnir í 2-1.

BF voru mun sterkari í fjórðu hrinu og leiddu alla hrinuna og náðu á tímabili góðu og sannfærandi forskoti. Jafnt var í 4-4 en þá skoraði BF 8 stig í röð og tóku Þróttarar tvö leikhlé á þessum kafla og var staðan orðin 4-12. BF var áfram sterkari og komust í 10-17 og tóku þeir leikhlé á þessum tímapunkti. Þróttarar komust aftur inn í leikinn og söxuðu jafnt og þétt á forskot BF. Staðan var orðin 17-19 og 20-22.  Gríðarlega mikil spenna var í lok þessarar hrinu og tóku BF strákarnir leikhlé í stöðunni 22-24 og náðu svo að innsigla sigurinn 22-25 og jöfnuðu leikinn 2-2.

Í fimmtu hrinunni, oddahrinunni, byrjuðu Þróttarar vel og komust í 5-1 og 7-3. BF voru seinir í gang en jöfunuðu þó 8-8 og tóku nú gestirnir leikhlé. Við tók frábær kafli hjá BF og skoruðu þeir sex stig í röð og var staðan skyndilega orðin 8-14. Þróttur náði einu stigi en BF kláraði hrinunna 9-15 og unnu þar með leikinn 2-3.

Spennandi og langur leikur sem var hjá þessum liðum og frábært fyrir BF að sækja þennan sigur.