Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar lék við Hamar í Benecta-deildinni í blaki í dag í Fjallabyggð. Leikmenn BF byrjuðu leikinn vel og komust í 6-0 án þess þó að þurfa hafa mikið fyrir hlutunum. Leikmenn Hamars virkuðu áhugalausir, og ekki hafa trú á verkefninu í fyrstu hrinunni.  BF komst fljótlega í 10-2 og 13-3, en þá tóku gestirnir leikhlé. BF komst í 18-4 með því að spila sinn venjulega leik, en þá tóku gestirnir fyrst aðeins við sér og náðu inn nokkrum stigum. Staðan var svo 20-12 og 22-13, en BF áttu síðustu þrjú stigin og kláruðu fyrstu hrinuna 25-13. Hamarsmenn voru ekki í takti í fyrstu hrinunni og reyndi hinn reynslumikli uppspilari þeirra, Jón Óli ýmis afbrigði í sóknarleiknum, en laumur hans enduðu yfirleitt góðri móttöku Óskars í liði BF. BF skilaði góðum uppgjöfum í fyrstu hrinunni og eins gekk sóknarleikurinn vel og hávörnin.

Hamarsmenn byrjuðu aðra hrinuna mun betur og ætluðu ekki gefa neitt eftir núna, þeir komust í 0-3 og 2-6 áður en BF maskínan tók við sér og minnkaði muninn í 4-8 og 8-8. Nokkuð jafnræði var með liðunum á þessum kafla og breyttist staðan í 10-12 eftir leikhlé heimamanna. BF skoraði svo 7 stig í röð og lagði grunninn að sigrinum í annari hrinu og komust í 17-12. Hamarsmenn náðu ekki að gera nóg til að minnka forskotið og komst BF í 20-15 og 23-18 og unnu að lokum hrinuna 25-18.

Í þriðju hrinu  voru BF menn líka sterkari heilt yfir og voru það helst mistök í sóknarleik sem gáfu Hamarsmönnum færi á að nálgast forskot BF. Í upphafi hrinunar náði BF yfirhöndinni í stöðunni 7-3 og 11-5 en þá tóku gestirnir leikhlé. Staðan var fljótlega 15-8 og 19-12 og sigurinn lág í loftinu. Hamarsmenn áttu þó nokkrar góðar sóknir og minnkuðu muninn í 20-17 en BF var aldrei að fara tapa hrinu í þessum leik og kláruðu vel 25-18.

Öruggur sigur hjá BF sem spilaði sinn venjulega leik og virtust ekkert þurfa hafa of mikið fyrir sigrinum í dag. Leikurinn tók aðeins 57. mínútur í dag, og niðurstaðan 3-0 fyrir BF. Patrik var góður í uppspilinu og Óskar gerði vel í lágvörninni og lét í sér heyra á vellinum, en heilt yfir var liðið að leika vel í dag.