BF og Völsungur mættust í úrslitum í blaki kvenna

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar heimsótti Völsung á Húsavík í kvöld, 98 gestir voru á vellinum samkvæmt leikskýrslunni. Liðin mætast nú í úrslitum um laust sæti í Mizuna-deildinni. Völsungur var nánast ósigrandi í 1. deildinni í vetur, en liðið tapaði aðeins einum leik en unnu 8 leiki. Liðið vann 26 hrinur en tapaði 9. BF og Völsungur mættust ekki í deildinni þar sem báðum leikjum þeirra var frestað ekki settir aftur á dagskrá.

Völsungur hefur mikla breidd og voru með 5 leikmenn á bekknum í þessum leik á meðan BF hafði aðeins tvo leikmenn á bekknum til skiptinga. Liðin keppast nú um að vinna tvo leiki, en BF fær næsta heimaleik.

Völsungur byrjaði fyrstu hrinuna mjög vel og voru með góða forystu í upphafi leiks í stöðunni 6-1, en þá tók BF strax leikhlé til að stöðva áhlaupið. Leikur BF batnaði og jöfnuðu þær 7-7, en það var í eina skiptið sem jafnt var í þessari hrinu. Völsungur komst í 10-7 og 16-9, en í þeim kafla tók BF sitt annað leikhlé. Eftir hléið kom aftur góður kafli hjá BF sem skoraði 10 stig gegn 5 og var staðan orðin 21-19 og tóku nú heimakonur leikhlé. BF minnkaði muninn í 22-20 og 24-22 og var nokkur spenna í hrinunni þessar síðustu mínútur. Völsungur náði lokastiginu og unnu 25-22 í fyrstu hrinu og var staðan orðin 1-0.

BF stelpurnar komu mun sterkari inn í aðra hrinu og voru með forystu á stórum köflum og spiluðu vel. BF komst í 1-4 og tóku þá heimakonur leikhlé eftir slaka byrjun þeirra. Völsungur komst í takt og komust í 6-5 og 11-8. BF hrökk þá í gír og kom góður kafli þar sem þær komust í 12-14 og aftur tóku heimakonur hlé.  Völsungur komst þá í 16-15 en BF skoraði þá 4 stig í röð og breyttu stöðunni í 16-19. BF komst þá í 17-20 og 18-23 með góðum leik. BF stelpurnar voru ákveðnar í lokin og unnu hrinuna nokkuð sannfærandi 19-25 og jöfnuðu leikinn 1-1.

Þriðja hrina var líka jöfn og spennandi og aftur náði BF að byrja vel en liðin skiptust svo á að ná forskoti alla hrinuna. Jafnt var í 3-3 og 6-6. BF komst þá í 6-9, en Völsungur kom þá með góðan kafla og komst í 12-9 og 14-10.  Í stöðunni 16-12 kom góður kafli hjá BF sem minnkaði munin á 16-15. Leikurinn var jafn það sem eftir lifði hrinunnar og mikil spenna. Jafnt var í 18-18 og 21-21. BF komst þá í 21-24 og voru hársbreidd frá sigri í hrinunni, en heimakonur tóku tvö leikhlé með stuttu millibili til að reyna stöðva gott gengi BF. Gestirnir úr Fjallabyggð voru ótrúlega seigar og kláruðu hrinuna 21-25 og voru nokkuð óvænt komnar í 1-2.

BF stelpurnar voru fullar sjálfstrausts í fjórðu hrinu og komust í 0-4 og tók þjálfari Völsungs strax leikhlé. BF komst í 0-6 áður en heimakonur komust á  blað, en Völsungur minnkaði muninn í 3-6 og 5-7. Völsungur hrökk þá í gang og komst í 10-8 og tók þá BF leikhlé eftir fimm stig í röð hjá heimakonum. BF skoraði þá 4 stig í röð og var staðan 11-12. Völsungur komst þá í 17-13 og aftur tók BF leikhlé. Völsungur komst í 19-13 og 23-14 með mjög góðum leikkafla, en lítið gekk upp hjá BF á sama tíma. BF skoraði þá 4 stig í röð og var staðan orðin 23-18 og tóku þá heimakonur leikhlé. Völsungur kláraði hrinuna 25-18 og voru talsvert sterkari þegar leið á hrinuna. Staðan var því orðin 2-2 og oddahrina framundan.

Oddahrinan var afar spennandi fyrstu mínúturnar og jafnt á öllum tölum þar til Völsungur komst í 7-5 og tók þá BF leikhlé. Völsungur lék mjög vel og komst í 13-6 og aftur tóku BF leikhlé, en lítið gekk upp hjá þeim á þessum kafla. BF minnkaði muninn í 14-7 og tók Völsungur leikhlé. Völsungur náðu í lokastigið og unnu hrinuna 15-7 og leikinn 3-2, og leiða nú einvígið 1-0.

Frábær barátta hjá BF í þessum leik en þær hafa tækifæri til að jafna leikinn í næsta leik.

Næsti leikur liðanna verður á Siglufirði á  fimmtudaginn næstkomandi kl. 15:00.