BF og Völsungur mættust á Siglufirði í úrslitaleik

Blakfélag Fjallabyggðar mætti Völsungi frá Húsavík í 1 .deild kvenna í blaki. Völsungur vann fyrri leik liðanna og dugði sigur í þessum leik til að standa uppi sem Íslandsmeistari. BF þurfti hins vegar sigur til að ná fram oddaleik í einvíginu. Flestir bjuggust við jöfnum leik eins og var í fyrri leiknum, en gestirnir komu mjög sterkar til leiks og átti BF erfitt með að verjast sóknarlotum þeirra. Áhorfendur voru loksins leyfðir aftur en takmörkun var þó á fjöldanum.

Gestirnir frá Húsavík komu gríðarlega vel stemmdar til leiks í fyrstu hrinu og allt gekk 100% upp hjá þeim. Völsungur komst í 0-14 og mjög óvanalegt fyrir BF að komast ekki á blað fyrr en í stöðunni 1-14, þrátt fyrir að þjálfarinn hafi tekið tvö leikhlé á þessum erfiða kafla. BF minnkaði þó muninn í 3-14 en Völsungur komst í 3-18 og það stefndi bara í eina átt. BF minnkaði muninn í 6-21 og 9-24. Völsungur vann hrinuna með yfirburðum 10-25.

BF byrjaði aðra hrinu mun betur og var sú hrina jafnari, gestirnir náðu þó undirtökunum og forystunni. BF komst í 2-0 en Völsungur svaraði strax 2-3 og 5-9, en þá tók BF leikhlé. Völsungur spilaði áfram vel og komust í 7-13 og 10-15 en aftur tóku BF stelpur leikhlé. Kom nú góður kafli hjá BF sem minnkaði muninn í 16-19 og tóku nú gestirnir hlé.  Völsungur komst í 18-23 en BF minnkaði muninn í 20-24 og settu smá spennu í leikinn. Völsungur tók síðasta stígið og unnu 20-25 og voru komnar í 0-2.

BF var inn í þriðju hrinu fyrstu mínúturnar en Völsungur tók aftur völdin og náðu upp öryggri forystu sem erfitt var að brjóta niður. Völsungur komst í 5-8 og 8-16 og tók BF þá leikhlé.  BF minnkaði muninn í 11-17 en Völsungur skoraði áfram og var staðan 13-20.  BF var enn inní leiknum í stöðunni 16-21, en gestirnir voru betra liðið og unnu hrinuna 16-25 og leikinn 0-3. Völsungur er því Íslandsmeistari í 1. deild kvenna í blaki árið 2021.

Völsungur gaf engin færi á sér í þessum leik og gerðu færri mistök. Liðið staðfestir með þessum leik að þær voru með besta liðið í deildinni.