Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar og HK-B mættust í Íþróttahúsinu á Siglufirði í gærkvöldi. Búist var við erfiðum leik, en HK hefur verið í efri hluta deildarinnar en BF í neðri hlutanum.

Það voru gestirnir sem byrjuðu af krafti og komust í 0-3 og 2-7 og tóku þá BF stelpurnar strax leikhlé. Í stöðunni 4-10 tóku BF stelpurnar við sér og jöfnuðu leikinn í 11-11 og komust yfir 15-13. HK stelpurnur áttu þá mjög góðan kafla og skoruðu 9 stig í röð og breyttu stöðunni í 15-22. BF stelpurnar löguðu aðeins stöðuna en HK vann hrinuna nokkuð örugglega 18-25.

Í annari hrinu voru BF stelpur með yfirhöndina í upphafi en HK stelpur leiddu svo út hrinuna. BF komst í 2-0 og 5-2 en sex stig í röð hjá HK breytti stöðunni í 5-8 og tóku þá BF stelpur leikhlé. HK var áfram sterkara liðið og komst í 6-12 og 8-15 og tóku þá BF stelpur annað leikhlé. HK stelpurnar voru áfram sterkari og breyttu stöðunni í 12-20 og 17-22. BF stelpurnar söxuðu jafnt og þétt á forskotið en það dugði ekki til og vann HK aðra hrinu 21-25 og staðan orðin 0-2!

BF stelpurnar voru mun betri í þriðju hrinu og sáu HK stelpurnar aldrei til sólar. BF komst í 4-0 og 6-1 og vaknaði þá HK af blundinum og skoruðu þrjú stig í röð og breyttu stöðunni í 6-4. BF stelpurnar héldu áfram að leiða og héldu áfram góðu forskoti, Í stöðunni 14-11 gerir BF fjögur stig í röð og kemst í 18-11 og 20-13. Í stöðunni 22-15 komu þrjú stig frá HK og staðan orðin 22-18 og tóku þá heimakonur leikhlé. BF stelpurnar kláruðu svo hrinuna með stæl og unnu 25-19 og var sigurinn í hrinunni aldrei í hættu.

Í fjórðu hrinu var jafnræði með liðunum fram í miðja hrinu, en þá voru HK stelpur sterkara liðið og allt gekk upp hjá þeim. HK komst í 1-3 og tók þá BF strax leikhlé. HK hélt áfram 2ja stiga forskoti fram í miðja hrinu og var staðan 3-5, 5-7, 8-10, en þá fór að draga á milli og komst HK í betri stöðu. BF tók annað leikhlé í stöðunni 8-12 en þá var HK að byrja síga framúr. BF náði með góðum kafla að jafna í 14-14 og 16-16, en þá tók HK völdin og komst í 17-22. HK var svo sterkari í lokin og unnu nokkuð þægilega 19-25 og leikinn 1-3. Leikurinn tók í heildina 96 mínútur.