BF og Afturelding mættust á Siglufirði

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar mætti í dag Aftureldingu-B í 1. deild kvenna í blaki. Afturelding var að spila sinn fyrsta leik á Íslandsmótinu í ár en BF hafði leikið tvo leiki og sigrað báða. Afturelding er með mjög gott lið og byrjuðu þær leikinn af krafti.

Afturelding komst í 0-7 í fyrstu hrinu og tók þjálfari BF strax leikhlé. Leikurinn jafnaðist aðeins og BF komst á blað en Afturelding leiddi þó alla hrinuna.  BF minnkaði muninn í 6-10 og 10-15 en gestirnir úr Mosfellsbæ skoruðu þá fjögur stig í röð, staðan þá orðin 10-19. Í stöðunni 11-22 fór spilið að ganga betur hjá BF og náðu þær að skora 7 stig í röð og var staðan orðin 18-22 og smá spenna komin í leikinn. Afturelding tók hér leikhlé til að stöðva BF. Gestirnir kláruðu svo hrinuna 18-25 og voru komnar í 0-1.

Önnur hrina var mun jafnari og var BF með góðan leik. Afturelding komst í 4-9 með góðu spili en BF svaraði til baka með sex stigum og var staðan því orðin 10-9. BF komst í 14-13 og tók þá Afturelding leikhlé og komust yfir 17-18 og var allt í járnum. BF var þó með yfirhöndina og komust í 20-18 og aftur tóku gestirnir leikhlé. Jafnt var í 22-22 og mikil spenna á lokamínútum hrinunnar. BF tók síðustu þrjú stigin og unnu 25-22 og jöfnuðu í 1-1.

Þriðja hrina var líka jöfn og spennandi í lokin en liðin skiptust á að leiða. BF komst í 9-3 með góðu spili en Afturelding komst yfir 10-11. Liðin skiptust á að fá stig og var svo jafnt 17-17 áður en BF komst í 21-18 og tók nú þjálfari Aftureldingar hlé. BF komst í 23-20 og vantaði herslumuninn að klára hrinuna. Afturelding voru seigar í lokin og jöfunuðu 23-23 og komust yfir 23-24. BF jafnaði 24-24 og aftur var jafnt 25-25. Gríðarleg spenna hérna en Afturelding náði síðustu tveimur stigunum og unnu 25-27 eftir upphækkun.

Fjórða hrina byrjaði jöfn en þegar leið á tók Afturelding öll völdin. Jafnt var í 4-4, 8-8 og 10-10 en eftir það fór Afturelding að síga hægt framúr og auka forystuna.  Gestirnir komust í 12-16 og tók þá BF leikhlé. Ekkert gat stöðvað gestina og var staðan 12-18 og 13-20. Afturelding kláraði svo hrinuna af öryggi 13-25 og leikinn 1-3.