BF mætti Ými í 2. deild kvenna í blaki – Umfjöllun í boði Torgsins

Torgið, veitingahús á Siglufirði er aðalstyrktaraðili umfjallanna um Blakfélag Fjallabyggðar í vetur í 1. deild karla og 2. deild kvenna.  Það eru hjónin Daníel Pétur Baldursson matreiðslumaður og Auður Ösp Hlíðdal Magnúsdóttir sem standa að baki veitingastaðnum Torginu á Siglufirði. Torgið er lítill, notalegur og fjölskylduvænn veitingastaður í hjarta Siglufjarðar.

Umfjöllun

Blakfélag Fjallabyggðar mætti Ými-B í 2. deild kvenna í blaki í hádeginu. Leikurinn fór fram á Siglufirði en þar er mót í gangi alla helgina í Íslandsmótinu í 2. deild kvenna.

BF mætti með 11 leikmenn í leikinn og er Sara Segarra Navas spilandi þjálfari. Spilað er upp á tvær unnar hrinur í þessu móti.

Gestirnir byrjuðu  betur í fyrstu hrinu og komust í 1-5 og tók þjálfari BF strax hlé til að endurskipuleggja stelpurnar. Ýmir komst í 1-7 og 3-10 en þá kom góður kafli hjá BF sem breyttu stöðunni í 11-11 og í millitíðinni tók Ýmir leikhlé.

BF stelpur spiluðu vel út hrinuna og komust yfir 18-15 og aftur tóku gestirnir hlé. Tóku við spennandi mínútur en Ýmir saxaði á forskotið og komust yfir 20-21 með mikilli baráttu og góðum leik.

BF stelpur skoruðu þá 4 stig í röð og blasti sigurinn við í stöðunni 24-21, en það reyndist erfitt að ná í síðasta stigið og Ýmir gafst ekki upp.

Gestirnir jöfnuðu leikinn 24-24 en BF átti loka orðið og unnu 26-24 eftir upphækkun og var staðan orðin 1-0. Frábær skemmtun þessi fyrsta hrina.

BF stelpurnar voru töluvert sterkari í seinni hrinunni og var ekki mikil ógn frá Ými. BF komst í 6-3 og 9-6 og tóku þá gestirnir leikhlé. BF jók forskotið í 12-6 og 15-9 og aftur tóku gestirnir leikhlé.

BF stelpurnar voru mun sterkari þegar hér var komið við sögu og komust í 20-10 og 24-13 með frábærum spilkafla. Ýmir klóraði aðeins í bakkann í lokin en BF vann örugglega 25-16 og leikinn 2-0.

Frábær úrslit fyrir BF stelpurnar og góð byrjun á mótinu.