BF mætti UMF Hjalta þriggja hrinu leik – Umfjöllun í boði Torgsins

Torgið, veitingahús á Siglufirði er aðalstyrktaraðili umfjallanna um Blakfélag Fjallabyggðar í vetur í 1. deild karla og 2. deild kvenna.  Það eru hjónin Daníel Pétur Baldursson matreiðslumaður og Auður Ösp Hlíðdal Magnúsdóttir sem standa að baki veitingastaðnum Torginu á Siglufirði. Torgið er lítill, notalegur og fjölskylduvænn veitingastaður í hjarta Siglufjarðar.

BF mætti UMF Hjalta frá Skagafirði í leik tvö í dag á Íslandsmótinu sem fram fer í Garðabæ um helgina í 2. deild kvenna. UMF Hjalti er einnig kallað Krækjurnar en liðið kemur frá Sauðárkróki og er gamalt og gróið félag og mikil hefð á bakvið starfið hjá þeim.

Úr varð hörku leikur þessara tveggja nágranna liða frá Norðurlandi. UMF Hjalti lék við Sindra í morgun og tapaði 1-2 á meðan BF vann Álftanes 2-0.

Fyrsta hrina var nokkuð jöfn framan af og tókst hvorugu liðinu að ná afgerandi forystu fyrr en í lok hrinunnar. Jafnt var í stöðunni 5-5 en  BF tók þá forystu 10-7 en UMF Hjalti skoraði þá 6 stig í röð með góðum kafla og komust yfir í stöðunni 10-13. BF jafnaði þá strax 13-13 og UMF Hjalti náði aftur góðum kafla og leiddu 14-17. BF jafnaði 17-17 og aftur var jafnt 19-19 en þá komu kaflaskil í leiknum. BF skoraði 7 síðustu stigin og unnu hrinuna 25-19 en Skagfirðingarnir tóku leikhlé undir lokin en ekkert stoppaði stelpurnar úr Fjallabyggð. Staðan orðin 1-0.

Önnur hrina var löng, jöfn og spennandi og fór í upphækkun. BF komst í 3-0 en UMF Hjalti komst yfir 4-7 og tók þá þjálfari BF leikhlé. UMF Hjalti átti þá góðan kafla og komst í 8-14 og 10-16. BF minnkaði muninn jafnt og þétt og staðan var aftur orðin góð 17-18.  Tók við spennandi og jafn kafli þar sem jafnt var í stöðunni 20-20, 22-22 og 25-25. BF hafði verið yfir 25-24 og aðeins vantað eitt stig, en UMF Hjalti skoraði síðustu þrjú stigin í þessari maraþon hrinu og unnu hrinuna 25-27 og jöfnuðu leikinn 1-1.

Þriðja hrinan og oddahrinan var mjög sveiflukennd og byrjaði BF mjög illa en á sama skapi gekk allt upp hjá UMF Hjalta sem komust í 0-8! BF komst loks inn í leikinn og minnkuðu muninn í 6-8 og komust yfir 14-9. UMF Hjalti skoraði þá 6 stig í röð og var staðan skyndilega orðin 14-15. Vinna þarf oddahrinu með tveimur stigum og var því gríðarleg spenna á þessum kafla.  Jafnt var á öllum tölum upp í 20-20 en þá tóku BF stelpurnar tvo stig í röð og unnu 22-20 og leikinn 2-1. Frábærlega vel gert og mikill endurkomusigur í þessari hrinu.

Þessi leikur tók aðeins meira af orku en fyrri leikur dagsins og var talsvert lengri.

Tveir sigrar hjá BF stelpunum í fyrstu tveimur leikjum dagsins.