BF mætti toppliði HK í lokaleik dagsins – Umfjöllun í boði Torgsins

Torgið, veitingahús á Siglufirði er aðalstyrktaraðili umfjallanna um Blakfélag Fjallabyggðar í vetur í 1. deild karla og 2. deild kvenna.  Það eru hjónin Daníel Pétur Baldursson matreiðslumaður og Auður Ösp Hlíðdal Magnúsdóttir sem standa að baki veitingastaðnum Torginu á Siglufirði. Torgið er lítill, notalegur og fjölskylduvænn veitingastaður í hjarta Siglufjarðar.

Blakfélag Fjallabyggðar mætti toppliði HK-H í loka leik dagsins 2. deild kvenna. HK liðið hafði spilað gríðarlega vel og ekki tapað hrinu á öllu mótinu, unnið 5 leiki eins og BF og unnið 10 hrinur. BF hafði unnið 5 leiki og 10 hrinur en tapað tveimur hrinum og var því í öðru sæti með 13 stig en HK  var með 15 stig. Algjör toppslagur var í vændum og var búist við jöfnum leik.

BF lék vel í fyrstu hrinu og hafði forystu lengst af en HK kom svo og jafnaði undir lokin. BF komst í 9-12 en HK komst svo yfir 16-14 en þá skoraði BF sex stig í röð og breyttu stöðunni í 16-20 og tók þá HK hlé. BF komst í 19-22 en HK jafnaði 22-22 og var mikil spenna lok þessara hrinu. BF voru sterkari á lokakaflanum og komust í 22-24 og unnu hrinuna 23-25 og voru komnar í 0-1 gegn HK sem hafði ekki tapað hrinu í 5 leikjum.

Önnur hrina var líka jöfn og skiptust liðin á að leiða með 3-4 stiga forystu.  HK komst í 12-8 og tók þá BF leikhlé. BF náði góðu spili og jafnaði 13-13 áður en HK komst aftur í forystu 18-14. BF var núna að elta HK og minnkaði muninn í 18-16 og 20-19. HK stelpurnar voru aðeins sterkari í lokin og komust í 22-20 og unnu hrinuna 25-20 og var staðan orðin 1-1 í þessum spennuleik.

Stelpurnar úr Fjallabyggð voru mun sterkari í oddahrinunni og ætluðu sér sigur í leiknum. BF komst í 3-7 og tók þá HK hlé. BF komst þá í 5-14 og vantaði aðeins eitt stig. HK stelpurnar náðu tveimur stigum en BF kláraði hrinuna örugglega 7-15 og unnu leikinn 1-2 og voru þar með fyrsta liðið til að leggja þetta HK-H lið í 2. deild kvenna í ár.

Frábær árangur hjá BF í 2. deild kvenna en þær unnu alla 6 leiki helgarinnar, unnu 12 hrinur og töpuðu aðeins 3.