BF mætti KA á Íslandsmótinu í blaki – Umfjöllun í boði Torgsins

Torgið, veitingahús á Siglufirði er aðalstyrktaraðili umfjallanna um Blakfélag Fjallabyggðar í vetur í 1. deild karla og 2. deild kvenna.  Það eru hjónin Daníel Pétur Baldursson matreiðslumaður og Auður Ösp Hlíðdal Magnúsdóttir sem standa að baki veitingastaðnum Torginu á Siglufirði. Torgið er lítill, notalegur og fjölskylduvænn veitingastaður í hjarta Siglufjarðar.

Umfjöllun

Blakfélag Fjallabyggðar tók á móti KA-B á Íslandsmóti karla í blaki í kvöld og fór leikurinn fram á Siglufirði. KA er með sterkasta liðið í 1. deildinni og hafa breiðan og góðan hóp leikmanna. BF hefur verið í uppbyggingarstarfi á þessu tímabili og yngri leikmenn fengið dýrmæta reynslu sem mun reynast liðinu vel næstu árin.

BF hóf leikinn vel og komst í 2-0 í fyrstu hrinu en það var í eina skiptið sem þeir höfðu forystu í hrinunni. KA strákarnir komust fljótt yfir 2-5 og 4-9 en þá tók BF hlé.  KA stjórnaði leiknum algerlega og komst í 7-16 og aftur tók þjálfari BF hlé.  BF minnkaði muninn í 10-19 og 12-22, en mótspyrnan var of mikil.  KA vann hrinuna með nokkrum yfirburðum 13-25 og voru komnir í 0-1.

KA byrjaði vel í annarri hrinu og komust í 0-3 en BF minnkaði muninn í 3-4, en erfiðlega gekk hjá heimamönnum að halda í forystu KA manna í þessari hrinu. KA komst í 4-6 og 4-9 og tóku þá heimamenn strax hlé. BF minnkaði muninn í þrjú stig 6-9 en KA strákarnir juku forskotið jafnt og þétt og komust í 8-15 og 9-17 með góðu spili. Tóku þá heimamenn annað hlé. BF minnkaði muninn í 10-20 og 14-22, en KA voru númeri of stórir og unnu hrinuna 15-25 og voru komnir í 0-2.

BF strákarnir gáfu allt í þriðju hrinuna og ætluðu ekki að gefast upp. KA komst þó í 0-3 en BF lék vel og komust í 6-4 og 8-5. Góður kafli kom þá hjá heimamönnum sem komust í góða forystu 12-6. KA minnkaði þó muninn í 15-12 en BF komst í 18-12 með góðu spili, nú voru það gestirnir sem þurftu leikhlé til að stöðva áhlaup BF strákanna. BF skoraði áfram og var staðan skyndilega 20-13 gegn þessu frábæra KA liði. BF komst í 23-16 og unnu hrinuna 25-16 og var staðan nú 1-2 í viðureigninni.

BF strákarnir byrjuðu af krafti í fjórðu hrinu og komust í 3-0 og 5-1.  KA strákarnir náðu góðu spili og jöfnuðu leikinn 6-6. BF skoraði þá þrjú í röð og komust í 9-6. KA minnkaði muninn í 11-10 og komust yfir 12-13. Leikurinn var mjög jafn og spennandi á þessum kafla og skiptust liðin á að skora. Jafnt var á næstu tölum, 13-13, 14-14 og 15-15 og engu líkara en að um úrslitaleik í bikarkeppninni væri að ræða. KA komst þá í 16-19 og voru næstu mínútur hrinunnar æsispennandi og jafnar þegar BF minnkaði muninn í 21-23 og 22-24.  KA gaf forskotið ekki eftir og unnu fjórðu hrinuna eftir mikla baráttu og jafnan leik lengst af, 22-25 og leikinn þar með 1-3.

BF strákarnir gáfu allt í þetta í síðustu tveimur hrinum og vantaði aðeins herslumuninn að ná tveimur unnum hrinum úr þessum leik.

Liðið leikur næst við Völsung/Eflingu á Húsavík 24. mars og er það lokaleikur BF í deildarkeppninni.