Torgið, veitingahús á Siglufirði er aðalstyrktaraðili umfjallanna um Blakfélag Fjallabyggðar í vetur í 1. deild karla og 2. deild kvenna.  Það eru hjónin Daníel Pétur Baldursson matreiðslumaður og Auður Ösp Hlíðdal Magnúsdóttir sem standa að baki veitingastaðnum Torginu á Siglufirði. Torgið er lítill, notalegur og fjölskylduvænn veitingastaður í hjarta Siglufjarðar.

Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar mætti liði KA-B á Akureyri í dag í 1. deild karla á Íslandsmótinu. KA liðið hafði leikið 6 leiki á mótinu og aðeins tapað tveimur leikjum og var í næstefsta sæti deildarinnar fyrir leikinn. BF hafði leikið þrjá leiki og átti enn eftir að vinna hrinu og leik. Reiknað var með erfiðum leik fyrir BF.  Leikið var í Naustaskóla á Akureyri.

BF mætti með breiðari hóp í þennan leik en síðasta útileik. Marcin og Alois voru mættir til leiks. KA hefur úr mörgum góðum leikmönnum að velja en þeir mættu með 12 manna hóp í verkefnið, þar af tvo fyrrum leikmenn BF.

BF gekk ágætlega allra fyrstu mínúturnar en í stöðunni 4-3 þá náði KA tök á leiknum og náðu góðu forskoti. KA komst í 8-3 og 12-6 og tók þá BF leikhlé.  KA komst fljótlega í 16-7 og aftur tók BF leikhlé. BF minnkaði muninn í 16-11 og 17-12 með góðum kafla. KA gerði tvær skiptingar og gengu á lagið og komust í 20-12. Heimamenn unnu svo hrinuna örugglega 25-16 og voru komnir í 1-0.

BF strákarnir byrjuðu svo feikivel í annarri hrinu og komust í 0-4 og 1-7. KA komst hægt og rólega inn í leikinn og minnkuðu muninn í 4-11 og 8-11. KA gerði svo vel og komst í 11-12 og tók nú BF hlé. KA seig svo framúr og komust í 15-13 og 18-14 og aftur tók BF hlé. KA strákarnir gáfu ekki fleiri færi á sér og komust í 21-14 og unnu hrinuna 25-16 og voru komnir í góða stöðu, 2-0.

Staðan var jöfn 3-3 í þriðju hrinu en KA tók aftur völdin og voru erfiðir við að eiga og komust í 7-3 og 11-6. KA gátu leyft sér að skipta ferskum mönnum inn án þess að veikja liðið mikið. Í stöðunni 17-11 tók BF leikhlé með von um endurkomu. BF minnkaði muninn í 18-14 en bilið var of mikið. KA vann hrinuna 25-17 og leikinn nokkuð örugglega 3-0.

Karlalið BF leikur þrjá aðra leik í desember og er því nóg um að vera í blakinu á næstunni.