BF mætti KA 1. deild karla í blaki – Umfjöllun í boði Torgsins

Torgið, veitingahús á Siglufirði er aðalstyrktaraðili umfjallanna um Blakfélag Fjallabyggðar í vetur í 1. deild karla og 2. deild kvenna.  Það eru hjónin Daníel Pétur Baldursson matreiðslumaður og Auður Ösp Hlíðdal Magnúsdóttir sem standa að baki veitingastaðnum Torginu á Siglufirði. Torgið er lítill, notalegur og fjölskylduvænn veitingastaður í hjarta Siglufjarðar.

Umfjöllun

Blakfélag Fjallabyggðar mætti KA-B í 1. deild karla í blaki í dag. Leikurinn fór fram í Íþróttahúsinu í Ólafsfirði. KA strákarnir eru með stóran leikmannahóp og mættu með 13 leikmenn, þar af þrír fyrrum BF leikmenn. KA voru á toppi deildarinnar og aðeins tapað tveimur leikjum af 11 í vetur, en BF hafði ekki unnið leik né hrinu í fyrstu sex leikjum Íslandsmótsins.

Það vantaði nokkra öfluga reynslubolta í lið BF í þessum leik, en uppspilarinn Óskar Þórðarson var ekki á leikskýrslu og ekki heildur Ólafur Björnsson. BF hafði því aðeins 7 leikmenn til taks í þessum leik. Þórarinn Hannesson var í uppspilinu í dag og dreifði spilinu vel.

Leikurinn var í jafnvægi fyrstu mínúturnar en KA náði ekki forskoti fyrr en leið á hrinuna. Staðan var 5-5 og 8-8 en þá komst KA yfir 8-10 og 9-14 með góðum leik. BF tók þá hlé en KA komst í 12-20 og 13-22, en BF átti erfitt með að verjast öflugum smössum frá þeim. KA vann hrinuna nokkuð þægilega 17-25.

KA strákarnir höfðu meiri yfirburði í annari hrinu og komust strax yfir í stöðunni 3-6 og 4-9 en þá tók BF hlé. KA komst í 7-13 og 9-15 en BF átti erfitt með að minnka forskotið. KA jók enn forystuna og kláraði hrinuna 15-25 og voru komnir í 0-2.

BF byrjaði mjög sterkt í þriðju hrinu og ætluðu að selja sig dýrt. Þeir komust í 3-0 og 7-1 og 11-2 og var fátt um svör hjá KA. Gestirnir minnkuðu muninn í 13-6 og 15-8. BF hélt áfram að sækja stig og voru komnir í góða stöðu 20-13 þegar KA skoraði 4 stig í röð og settu mikla spennu í endasprettinn.  KA minnkaði muninn í aðeins tvö stig, 21-19 en BF gerði mjög vel og unnu 25-20 og unnu loksins hrinu á Íslandsmótinu.  Staðan orðin 2-1.

BF lék aftur vel í fjórðu hrinu og seldu sig dýrt og endaði þessi hrina í upphækkun. BF komst í 3-1 en KA jafnaði 5-5 og komst yfir 5-9 og 6-11. BF minnkaði muninn í 9-11 en KA var með yfirhöndina og komst í 11-15 og tók þá BF hlé. BF sótti nú hart að KA og minnkaði muninn í tvö stig, 16-18, jöfnuðu 19-19 og komust yfir 20-19 og 23-19. KA minnkaði nú muninn í 23-21 en BF skoraði aftur 24-21 og var gríðarlega spenna í loftinu. Hið ótrúlega gerðist og KA skoraði 4 stig í röð og komust yfir 24-25. Aftur var jafnt 27-27 og 28-28. KA strákarnir náðu lokastigunum og unnu hrinuna 28-30 í upphækkun eftir hreint ótrúlegan leikkafla. BF var svo nærri því að vinna hrinuna en það gekk því miður ekki.

KA vann leikinn 1-3 og máttu teljast heppnir að vinna fjórðu hrinuna.