BF mætti Hamar í Hveragerði – Umfjöllun í boði Torgsins

Torgið, veitingahús á Siglufirði er aðalstyrktaraðili umfjallanna um Blakfélag Fjallabyggðar í vetur í 1. deild karla og 2. deild kvenna.  Það eru hjónin Daníel Pétur Baldursson matreiðslumaður og Auður Ösp Hlíðdal Magnúsdóttir sem standa að baki veitingastaðnum Torginu á Siglufirði. Torgið er lítill, notalegur og fjölskylduvænn veitingastaður í hjarta Siglufjarðar.

Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar mætti Hamar-B  í 1. deildinni á Íslandsmótinu í dag. Leikið var í Íþróttahúsinu í Hveragerði, en liðin mættust einnig í gær og hafði heimaliðið 3-0 sigur. Strákarnir úr Fjallabyggð vildu ólmir gera betur í dag og gáfu allt í leikinn.

Fyrsta hrina var jöfn og áttu strákarnir í Fjallabyggð góða innkomu inn í leikinn. Hamar komst í 6-4 og 8-5 en BF jafnaði 8-8 og 9-9. Liðin skiptust á að taka forystu í hrinuni, en BF komst í 12-14 en aftur var jafnt 15-15 og 17-17. Kom nú góður kafli hjá heimamönnum sem komust yfir 20-17 og 21-18. BF minnkaði muninn í 21-20 og var kominn nokkur spenna í leikinn. Hamar komst í 23-20 en BF minnkaði muninn 23-21 og 24-22. Hamar átti lokastigið og unnu hrinuna 25-22 og voru komnir í 1-0.

Hamar byrjaði af krafti í annari hrinu og komust í 7-1 og 8-2 en þá tók BF leikhlé. BF minnkaði muninn í 9-6 en þá skoraði Hamar 8 stig á móti einu með góðum kafla og var staðan orðin 17-7. Hamar var sterkara liðið í hrinunni og komust í 20-11. BF minnkaði muninn í 22-15 og 23-17 en Hamar kláraði hrinuna 25-17 og voru komnir í 2-0.

Þriðja hrinan var líka jöfn eins og sú fyrsta en staðan var jöfn 3-3 og 6-6 en BF komst í 9-11 með góðum kafla og tóku nú heimamenn leikhlé. Hamar skoraði þá 7 stig á móti einu og komust í 16-12. BF minnkaði muninn í 16-15 og 17-16. Hamar komst í 19-16 og 20-18.  Hamarsmenn voru sterkari á lokakaflanum og komust í 23-20 og unnu hrinuna 25-20.

Hamar vann leikinn nokkuð örugglega 3-0 en BF átti ágætis kafla inn á milli og styttist vonandi í fyrsta sigurinn hjá þeim. BF hefur núna leikið 6 leiki í deildinni og eru í neðsta sæti.