Torgið, veitingahús á Siglufirði er aðalstyrktaraðili umfjallanna um Blakfélag Fjallabyggðar í vetur í 1. deild karla og 2. deild kvenna.  Það eru hjónin Daníel Pétur Baldursson matreiðslumaður og Auður Ösp Hlíðdal Magnúsdóttir sem standa að baki veitingastaðnum Torginu á Siglufirði. Torgið er lítill, notalegur og fjölskylduvænn veitingastaður í hjarta Siglufjarðar.

Umfjöllun

Síðari leikur Blakfélags Fjallabyggðar í 2. deild kvenna fór fram síðdegis í dag í Íþróttahúsinu á Siglufirði og voru mótherjarnir Fylkir-B. Úr varð hörkuviðureign sem fór í þrjár hrinur. Fyrsta hrinan var jöfn og spennadi og skiptust liðin á að vera með forystu. BF stelpurnar byrjuðu með ágætum og komust í 1-4, 4-9 og 8-12 en þá komust Fylkisstelpurnar betur inn í leikinn og jöfnuðu 12-12 og komust yfir 15-13. BF stelpurnar voru hinsvegar aldrei langt undan og var leikurinn í járnum.  Jafnt var 17-17 og í framhaldinu kom góður kafli hjá BF sem komust yfir 18-23 en þá tók Fylkir leikhlé. Leikurinn snérist við og Fylkir minnkaði muninn í 22-23 og var mikil spenna þessar lokamínútur. BF komst í 22-24 en erfiðlega gekk að klára hrinuna með lokastiginu. Fylkir jafnaði 24-24 og unnu 26-24 eftir upphækkun í 4 stig í röð og var staðan því 1-0.

BF stelpurnar voru mun betri í annari hrinu og náðu góðu forskoti var sigurinn þar má segja aldrei í hættu.  Jafnt var 4-4 en þá komst BF hressilega í gang og komust yfir 4-13 og tók Fylkir leikhlé í þessu áhlaupi.  Fylkir komst aðeins aftur inn í leikinn og minnkuðu muninn í 8-15 og tóku aftur hlé.  BF gekk vel að sækja stigin og komust í 8-18 og 12-21 og stefndi allt í öruggan sigur.  Fylkir minnkaði aftur muninn í 17-22 en BF kláraði þetta 17-25 með frábærum leik og jöfnuðu í 1-1.

Þriðja hrina var oddahrinan og þurfti aðeins 15 stig þar til að sigra leikinn. Liðin voru nokkuð jöfn framan af en BF átti góðan lokasprett. Fylkir byrjaði vel og komst í 4-1 en BF jafnaði 6-6 og komst yfir 8-9 og tóku þá gestirnir hlé. BF komst í 9-12 og 10-14 og tóku gestirnir annað leikhlé en sú hernaðaráætlun gekk ekki eftir og tóku stelpurnar úr Fjallabyggð síðasta stigið og unnu 10-15 og leikinn 1-2.

Annar frábær sigur hjá BF en stutt var á milli leikja í dag og því dýrmætt að hafa stóran hóp og nota sem flesta leikmenn þegar þreytan fer að taka völdin.